Umtalsverðar verðhækkanir á kaffi

Guðmundur segir að neysla á kaffi hafi verið umfram framboð …
Guðmundur segir að neysla á kaffi hafi verið umfram framboð síðustu ár og gengið hafi á varabirgðir hrákaffis um allan heim. Morgunblaðið/Eggert

Heimsmarkaðsverð á kaffi hefur hækkað gríðarlega undanfarna mánuði, sem mun að öllum líkindum leiða til umtalsverðra verðhækkana fyrir neytendur.

Þetta segir Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & kaffi, í samtali við Morgunblaðið, en fyrirtæki hans fer ekki varhluta af ástandinu. „Við munum þurfa að hækka verð. Við hækkuðum verð í byrjun desember og erum búin að tilkynna viðskiptavinum okkar á heildsölumarkaði um aðra hækkun sem tekur gildi um miðjan mars. Ég á því miður ekki von á öðru en að við þurfum að skoða verð aftur seinna á árinu,“ segir Guðmundur.

Svipuð atburðarás

Hann segir að einhverju leyti um svipaða atburðarás að ræða á kaffimarkaði eins og verið hefur á súkkulaðimarkaði síðastliðið ár. „Hrávörumarkaðir hafa almennt verið að hækka en af misjöfnum ástæðum. Uppskerubrestur í stærstu ræktunarlöndum heimsins er að valda því að kaffiverð hefur ekki verið hærra síðan 1977. Til að mynda ræktar Brasilía um 40% af kaffi heimsins og allar breytingar þar hafa mikil áhrif á allan kaffiheiminn. Þar ríkir mikil svartsýni varðandi næstu uppskeru vegna langvarandi þurrka frá apríl fram í október á síðasta ári og það er verið að spá 5% samdrætti í uppskeru. Það eitt og sér setur kaffiræktun á heimsvísu í gríðarlegt uppnám.“

Hann segir hækkanirnar sláandi. „Það fer hrollur um mann á hverjum degi við að fylgjast með stöðunni á mörkuðum. Maður finnur einnig til vanmáttar þegar maður veit að það er lítið af verkfærum til að fást við þetta.“

Um fleiri ástæður verðhækkana segir hann að neysla á kaffi hafi verið umfram framboð síðustu ár og gengið hafi á varabirgðir hrákaffis um allan heim. „Það er talið að eftirspurn hafi aukist um 2-3% á síðustu árum að meðaltali. Veðrabreytingar eru helsta skýring minna framboðs þar sem uppskerubrestur í Brasilíu, Víetnam og Kólumbíu upp að vissu marki hefur gríðarleg áhrif á framboð. Þessi lönd eru þau umsvifamestu í ræktun á kaffi á heimsvísu og uppskera í Brasilíu hefur jafnvel verið undir meðaltali í nokkur ár í röð. Núna er komið að skuldadögum þar sem ekki er til nægjanlegt kaffi á móti þeirri eftirspurn sem er í heiminum í dag,“ segir Guðmundur.

Sjá sér leik á borði

Hann segir að í þessu ástandi sjái vogunarsjóðir og aðrir fjárfestar sér leik á borði og ýti verðinu meira upp með spákaupmennsku.

Guðmundur segir að nú þegar sé komin rúmlega 50% hækkun innkaupsverðs á fyrsta fjórðungi 2025 samanborið við síðasta fjórðung síðasta árs. Framhaldið sé dökkt og búast megi við mun meiri hækkunum á innkaupsverði á næstu mánuðum. Hann bætir við að heimsmarkaðsverð á kaffi hafi ekki verið hærra í fimmtíu ár. „Til viðbótar er gengi Bandaríkjadollarans ekki að hjálpa okkur. Það er sterkara en fyrir ári. Þessar innkaupahækkanir á kaffi eru af þeirri stærðargráðu að fyrirtæki ráða væntanlega ekki við þær í óbreyttri mynd. Ekkert fyrirtæki er með þess háttar lagerstöðu eða hagstæða samninga til lengri tíma litið og á endanum mun það hafa áhrif á alla í kaffibransanum.“

Guðmundur segir að þessi 50% hækkun innkaupsverðs þýði sem betur fer ekki samsvarandi hækkun til neytenda úti í búð. „Þetta gerist auðvitað ekki heldur í einni svipan, en verð er þegar tekið að hækka og mun að öllum líkindum halda áfram á næstunni. Ég er því miður ekki bjartsýnn á að verð fari að lækka aftur á næstu misserum, en við vonum það besta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka