Hjörleifur Arnar Waagfjörð, forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka skrifar:
Á myrkum fimmtudegi, hálf fimm síðdegis á síðustu mánuðum ársins, stendur miðaldra maður við kaffivélina og spyr sig þessarar áleitnu spurningar úr samnefndu lagi okkar ástkæra tónlistarmanns, hans heitinnar hátignar Prins Póló. En hvað þá um viðbótarlífeyrissparnað, er of seint fyrir mig að byrja núna?
Á lífsleiðinni tökum við öll allnokkrar stórar ákvarðanir. Sumar eru mældar í peningum eða eignum á borð við fasteignir eða sparnað ýmiss konar. Aðrar snerta þætti sem hafa djúpstæð áhrif á líf okkar, svo sem fjárfestingu í menntun, fjölskyldu, persónulegum tengslum eða eigin heilbrigði.
Segja má að viðbótarlífeyrissparnaður feli í sér alla ofangreinda þætti, enda um að ræða fjárfestingu í fjárhagslegu heilbrigði okkar í víðum skilningi. Mikilvægt er að átta sig á því að fólk ákveður sjálft að hefja þessa tegund sparnaðar – það gerist ekki af sjálfu sér.
Sparnaðurinn er settur saman úr framlagi launþega, að hámarki 4% af launum, og framlagi atvinnurekanda sem er 2% samkvæmt flestum kjarasamningum.
Ekki er tekinn skattur af sparnaðinum við innborgun en við útborgun er greiddur tekjuskattur.
Sparnaðurinn er erfanlegur, útgreiðslur eru sveigjanlegar við starfslok og að auki stendur einstaklingum nú til boða að nýta sparnaðinn skattfrjálst við útborgun á fyrstu fasteign eða í formi innborgunar á húsnæðislán.
Viðbótarlífeyrissparnaður er sparnaður til lengri tíma og skynsamlegt fyrir einstaklinga að byrja sem allra fyrst til að ávöxtun skili sem hagstæðastri niðurstöðu, til að hámarka viðbótarframlag frá launagreiðanda, eiga kost á auknum sveigjanleika og minna launatapi við starfslok.
En hefji einstaklingar af einhverjum sökum seint að leggja fyrir er engu að síður til mikils að vinna. Tökum dæmi um 45 ára einstakling sem hefur 850.000 kr. í laun á mánuði til 70 ára aldurs.
Hann ákveður að hefja greiðslur í viðbótarlífeyrissparnað með greiðslu sem nemur 4% af launum og fær 2% mótframlag frá vinnuveitanda, ávöxtun er 3,5% á ári.
Við 70 ára aldur ætti viðkomandi einstaklingur um 24,3 milljónir, þar sem greiðslur hans nema 10,2 milljónum króna, framlag launagreiðanda nemur um 5,1 milljón króna og ávöxtun um 9 milljónum króna.
Svo getur hver sem þetta les reiknað samsvarandi áætlun út frá sínum forsendum í aldri og tekjum, til dæmis á heimasíðu Frjálsa lífeyrissjóðsins eða Arion banka.
Kaffi er að mínu mati gjöf frá Guði en öllu óljósara er þó í huga mér hvenær dreypa megi á síðasta bolla dagsins. Hvert og eitt okkar þarf sennilega bara að gera það upp við sig.
Hvað viðbótarsparnað varðar er niðurstaðan hins vegar skýr – það er aldrei of seint að byrja að leggja fyrir þrátt fyrir að einhver ár hafi þegar liðið á vinnumarkaði.
Því langar mig að hvetja þau sem ekki hafa nýtt sér viðbótarsparnað til að kynna sér þetta sparnaðarform og hefja sparnaðinn sem fyrst því að til mikils er að vinna.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.