Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar, segir miklar hækkanir síðustu ára á nær öllum kostnaðarliðum hafa þyngt róður fyrirtækja í ferðaþjónustu og dragi það úr samkeppnishæfni þeirra.
Hún segir það vera einfalda staðreynd að mikil óvissa um boðuð auðlindagjöld nýrrar ríkisstjórnar komi einnig niður á rekstri ferðaþjónustufyrirtækja.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Það er útlit fyrir kröftuga eftirspurn eftir ferðalögum alþjóðlega næstu misserin og því mikil tækifæri til staðar fyrir íslenska ferðaþjónustu. Þau tækifæri munu hins vegar ekki koma til með að grípa sig sjálf frekar en fyrri daginn.
Það gleymist oft í opinberri umræðu að Ísland er og verður alltaf í harðri alþjóðlegri samkeppni um hylli erlendra ferðamanna. Það er alls ekki sjálfsagt að þeir kjósi að ferðast hingað til lands fremur en til annarra áfangastaða. Íslenskum stjórnmálamönnum er sérstaklega tamt að gleyma því.
Miklar hækkanir undanfarinna ára á flestum, ef ekki öllum, kostnaðarliðum fyrirtækja í ferðaþjónustu og hinum ýmsu álögum hafa þyngt róður þeirra verulega og dregið úr samkeppnishæfni.
Til marks um erfiða samkeppnisstöðu Íslands á alþjóðlegum mörkuðum er raungengi íslensku krónunnar hátt í sögulegu samhengi, bæði á mælikvarða launa og verðlags.
Það er enn mikil óvissa uppi um boðuð auðlindagjöld nýrrar ríkisstjórnar þar sem hvorki er vitað hvernig þau verða né hvenær þau eigi að taka gildi. Sú staðreynd ein og sér hefur dregið úr fyrirsjáanleika og lagt stein í götu fyrirtækja og torveldað áætlanagerð þeirra til framtíðar.
Það er nauðsynlegt að auðlindagjöld verði útfærð með skynsamlegum hætti, stuðli að hagkvæmri álagsstýringu og taki fullt tillit til þeirra skatta og gjalda sem nú þegar eru til staðar.
Það er engum til heilla ef tilgangur boðaðra auðlindagjalda er einungis sá að afla tekna fyrir ríkissjóð. Samhengi hlutanna skiptir máli.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Útivist, hreyfing, góðar stundir í hesthúsinu og hefð okkar feðgina að fara út að aka og hlusta á eðaltónlist hafa reynst mér best þegar einhver vöntun er á orku eða innblæstri.
Ég fer einnig reglulega norður í land, til Skagastrandar og annarra sveita í Austur-Húnavatnssýslu, til að fylla á orkubankann, þar fæ ég oft mínar bestu hugmyndir.
Hjá Samtökum ferðaþjónustunnar starfar svo fjölbreyttur hópur og oft sæki ég þekkingu og ráð til samstarfsmanna sem og til félagsmanna SAF sem ég á í daglegum samskiptum við og hef mikla ánægju af.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Það er skemmtilegt frá því að segja að við í Hagsmunafélagi kvenna í hagfræði – HKH, munum ásamt RSE – Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, endurútgefa bókina Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt í lok febrúar.
Áhugi landsmanna á samfélags- og efnahagsmálum hefur vaxið og töldum við í stjórn HKH og RSE tímabært að endurútgefa þetta vandaða rit um hagfræði á mannamáli, sem nýtist öllum lesendum til góðs.
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Ég les og hlusta mikið á bækur og ýmis hlaðvörp. Flugvarpið er í miklu uppáhaldi hjá mér. Eftir ábendingu frá góðum kollega er ég loksins að lesa bókina „Lifað með öldinni“ eftir Jóhannes Nordal fyrrverandi seðlabankastjóra þar sem hann rekur hagsögu sinnar tíðar og hvernig hann upplifði þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem áttu sér stað þá.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Það má segja að vinnumarkaðslíkanið svokallaða sé einn helsti veikleiki í rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja. Launahlutfallið hjá íslenskum fyrirtækjum er almennt mjög hátt í alþjóðlegum samanburði.
Skattheimta hér á landi er svo nú þegar með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli. Ofan á það hafa ferðaþjónustuaðilar oft og tíðum þurft að sætta sig við hækkun á álögum nær fyrirvaralaust. Nærtækasta dæmið er gististaðir sem hafa ár eftir ár orðið fyrir barðinu á fyrirvaralausum hækkunum á gistináttaskatti. Skortur á fyrirsjáanleika í boði stjórnvalda hefur verið einn helsti gallinn í rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja.
Fyrirframgreiðslur og pantanir langt fram í tímann eru venja fremur en undantekning þegar kemur að ferðalögum fólks. Slíkum samningum verður ekki breytt eftir á.
Ef stjórnvöld ætla að láta ferðamanninn sjálfan greiða álagða skatta og gjöld þarf meiri fyrirsjáanleika, ella sitja íslensk ferðaþjónustufyrirtæki uppi með reikninginn. Stjórnvöld þurfa að gera hér mun betur með því að sýna fyrirtækjarekstri almennt þá lágmarksvirðingu sem hann á skilið.