Greiða 25 milljarða í arð þrátt fyrir krefjandi aðstæður

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsvirkjunar dróst saman um tæplega 20% á síðasta ári miðað við árið á undan, en hagnaðurinn nam 301 milljónum Bandaríkjadala, eða um 41,5 milljörðum króna. Lagt er til að fyrirtækið greiði 25 milljarða í arð til ríkisins vegna síðasta árs. Forstjóri félagsins segist ánægður með reksturinn þrátt fyrir samdrátt milli ára, en árið 2023 var metár og aðstæður í fyrra krefjandi.

Félagið hefur sent frá sér yfirlit úr ársreikningi og þar kemur meðal annars fram að rekstrartekjur félagsins hafi lækkað um 14,7% milli ára og voru þær 561 milljón Bandaríkjadalir. Eru það tæplega 90 milljarðar króna.

Fyrirtækið seldi 14,1 TWst af raforku, en það er 3,9% samdráttur frá fyrra ári.

Skuldir félagsins nema 667 milljónum dala og lækkuðu um 4,4% milli ára og er eiginfjárhlutfall félagsins nú 66,2%. Í tilkynningu félagsins kemur fram að fjárhagsstaða fyrirtækisins sé nú sterkari en nokkru sinni fyrr.

Krefjandi aðstæður og vatnsbúskapur lakur

Líkt og fyrr segir áformar stjórn að leggja til að greiddur verði 25 milljarða arður til ríkisins í ár, en með því verða samanlagðar arðgreiðslur áranna 2021 til 2024 um 90 milljarðar.

Haft er eftir Herði Arnarsyni, forstjóra félagsins, að rekstur félagsins hafi gengið vel á síðasta ári, þótt afkoman hafi ekki jafnast á við metárið 2023. „Aðstæður voru krefjandi á árinu, vatnsbúskapur sögulega lakur, sem leiddi til þess að tekjur drógust saman vegna minni raforkusölu. Þá urðu breytingar á verðtengingu í samningi við stórnotanda, auk þess sem innleystar áhættuvarnir lækkuðu frá fyrra ári. Afkoman var því vel ásættanleg miðað við aðstæður,“ er haft eftir honum.

Þá vísar Hörður til þess að á síðasta ári hafi framkvæmdir hafist við 120 MW vindmyllugarð sem þekktur hefur verið undir nafninu Búrfellslundur, en fyrirtækið vill nú kalla Vaðöldu. Einnig hafi framkvæmdir hafist við 95 MW Hvammsvirkjun.

Aldri áður unnið að fernum nýframkvæmdum á sama tíma

Þessar nýju virkjanir mæta brýnni þörf fyrir frekari raforku til að mæta orkuskiptum og vexti samfélagsins. Afar mikilvægt er að ekki verði frekari tafir á framgangi þessara verkefna. Á árinu 2025 áformum við einnig að hefja framkvæmdir við stækkun Þeistareykja- og Sigöldustöðvar. Aldrei áður hefur fyrirtækið unnið að fernum nýframkvæmdum á sama tíma, með þremur mismunandi orkugjöfum,“ er haft eftir Herði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK