Andlitið búið til úr 360 starfsmönnum

Eins og landsmenn hafa vafalítið tekið eftir hefur ný talskona ráðgjafarfyrirtækisins Deloitte á Íslandi kvatt sér hljóðs með áberandi hætti upp á síðkastið, á samfélagsmiðlum og í auglýsingum í fjölmiðlum og á skiltum.

Manneskjan heitir Dagný Eva Loitte (D.E. Loitte) og er gervigreindarpersóna búin til úr 360 ráðgjöfum Deloitte á Íslandi.

„Dagný sameinar sérfræðiþekkingu allra þessara starfsmanna og miðlar henni á lifandi hátt í herferðinni Góður punktur,“ segir María Skúladóttir markaðsstjóri Deloitte í samtali við Morgunblaðið.

Gervigreindarpersónan Dagný Eva Loitte.
Gervigreindarpersónan Dagný Eva Loitte.

Agga Jónsdóttir, sköpunarstjóri hjá Auglýsingastofunni Pipar\TBWA, segir í samtali við Morgunblaðið að herferðin gangi út á að nota græna punktinn í myndmerki Deloitte.

Talað sé um góða punkta fyrir fyrirtæki, stofnanir og samfélagið til að koma á framfæri þeirri þekkingu og reynslu sem teymi ráðgjafa Deloitte býr yfir.

„Ráðgjöf þeirra er góðir punktar í alvörunni,“ útskýrir Agga. „Það er grunnhugmyndin, að sýna hina yfirgripsmiklu breidd í ráðgjafarteyminu.“

María Skúladóttir, markaðsstjóri Deloitte.
María Skúladóttir, markaðsstjóri Deloitte.

Agga segir að við vinnslu herferðarinnar hafi Pipar fengið sendar myndir af öllu starfsfólki Deloitte. „Svo tókum við fjóra og fjóra og blönduðum saman í eina persónu og svo koll af kolli. Andlit Dagnýjar er sett saman úr öllum þessum 360 andlitum. Það var í raun tilviljun að manneskjan endaði á að vera kona.“

Í herferðinni eru sem fyrr segir notaðir „góðir punktar“ frá ráðgjöfunum. „Við fengum fólk til að senda okkur góða punkta sem við nýtum svo í auglýsingum.“

Spyrja á Instagram

Agga Jónsdóttir, sköpunarstjóri/í vörumerkjavirkjun hjá Auglýsingastofunni Pipar\TBWA.
Agga Jónsdóttir, sköpunarstjóri/í vörumerkjavirkjun hjá Auglýsingastofunni Pipar\TBWA.

Hægt er að nálgast Dagnýju á Instagram og spyrja hana spurninga. „Ráðgjafarnir fá spurningarnar og svara þeim um hæl, en þó ekki í rauntíma.“

María segir að hugmyndin að herferðinni hafi fæðst hjá Pipar. „Við vildum finna skapandi leið til að varpa ljósi á þá fjölbreyttu þekkingu sem býr í fyrirtækinu og setja fram í auglýsingum.“

Hægt er að lesa punktana góðu á vefsíðu Deloitte. „Við setjum reglulega inn nýja góða punkta,“ segir María en hjá Deloitte starfa til dæmis sérfræðingar í sköttum, fjármálum, tækniráðgjöf, sjálfbærniráðgjöf og endurskoðun, svo eitthvað sé nefnt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK