Samkvæmt tilkynningu er Tryggvi Björn Davíðsson nýr framkvæmdastjóri sparisjóðsins Indó.
Tryggvi Björn er annar stofnenda Indó og var áður rekstrarstjóri. Hann tekur við framkvæmdastjórastarfinu af meðstofnanda sínum, Hauki Skúlasyni, sem mun taka að sér ráðgjafastörf fyrir stjórn fyrirtækisins. Haukur og Tryggvi eru báðir enn í hópi stærstu eigenda Indó.
Fram kemur í tilkynningu að Tryggvi Björn hafi mikla reynslu af bankamarkaði og starfaði m.a. áður hjá Barclays í Lundúnum og sem framkvæmdastjóri markaða hjá Íslandsbanka.
Í tilkynningu er haft eftir Hauki Skúlasyni, meðstofnanda Indó:
„Ég er afar stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og þeim jákvæðu breytingum sem innkoma Indó á markaðinn hefur haft í för með sér. Við hófum þessa vegferð fyrir sjö árum. Nú eru tímamót í starfsemi félagsins og ég hef ákveðið að draga mig út úr daglegum rekstri. Ég mun hins vegar áfram styðja við félagið með ráðum og dáð. Sýn okkar er óbreytt. Við teljum okkur geta sparað tíu þúsund milljónir fyrir almenning á hverju einasta ári. Í fyrra spöruðu viðskiptavinir indó 922 milljónir króna í bullgjöld og af því er ég stoltur.“