„Á þeim tíma sem það tekur mig að segja þessa setningu hefur Indó-kortið verið notað fjórum sinnum,“ segir Tryggvi Björn Davíðsson, stofnandi sparisjóðsins Indó, þegar hann stendur með blaðamanni fyrir framan stóran upplýsingaskjá fyrirtækisins sem sýnir viðskipti við félagið í rauntíma.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan árið 2022 þegar forritarar Indó fóru út í Nettó í Lágmúla til að kaupa sér samloku og gos og notuðu Indó-kort í fyrsta skipti við mikil fagnaðarlæti.
Segja má að vöxturinn hafi verið ævintýralegur á stuttum tíma. Viðskiptavinir eru nú orðnir 78 þúsund og fjölgar um 2.500 á mánuði. Helmingur þeirra notar kortið daglega. Mánaðarlegur fjöldi kortafærslna er 1,4 milljónir, eða ein á hverri sekúndu. Fjöldi mánaðarlegra millifærslna er 500 þúsund. „Við erum komin langt fram úr áætlunum,“ segir Tryggvi. „Við héldum upphaflega að við yrðum komin með 10-15 þúsund viðskiptavini á þessum tímapunkti.“
Launareikningum Indó fjölgar einnig ört og níu milljarðar króna komu inn á þá um síðustu mánaðamót.
Þegar litið er til tekna Indó á síðasta ári þá þrefölduðust þær eftir að sparisjóðurinn hóf útlánastarfsemi. Búist er við að tekjur margfaldist aftur 2025. „Við erum ekki enn orðin arðbær, en það styttist í það,“ segir Tryggvi og bætir við að margir sambærilegir áskorendabankar hafi ekki orðið arðbærir fyrr en eftir tíu ára starfsemi. „Við bjóðum í dag upp á launareikninga sem við fáum vaxtatekjur af, sparibauka sem við fáum einnig vexti af, og svo er efnahagsreikningurinn orðinn það stór að við höfum fært okkur yfir í útlán.“
Fyrirtækið tekur ekki færslugjöld af debetfærslum, það er ekki með gjaldeyrisálag og rukkar ekki árgjald af debetkortum. Það lifir því eingöngu á vaxtamun og söluaðilaþóknunum frá VISA international „Við erum útgefandi korta og fáum því 0,2% af hverri einustu færslu sem söluaðilar eins og VISA greiða okkur.“
Haukur Skúlason meðstofnandi Indó segir að fyrirtækið hafi lagt áherslu á að gera hlutina vel, frekar en hratt. Þó hafi það náð að hefja útlánastarfsemi eftir aðeins 16 mánaða starfstíma sem er mun skjótar en bankar sem Indó ber sig saman við hafa gert.
Meðal nýrra útlánaleiða Indó er yfirdráttur. „Við erum byrjuð að bjóða 500 þúsund króna yfirdrátt á 15% vöxtum. Margir taka hann og borga niður óhagstæðari yfirdrátt í hinum bönkunum. Svo geturðu stillt á reglubundna uppgreiðslu yfirdráttarlánsins um leið og þú tekur það. Ef þú ferð þá leið þá lækka vextirnir í 13%. Það er auðvitað ekkert vit í því fyrir okkur. Við myndum græða meira á því að hafa peninginn sem lengst hjá okkur og á hærri vöxtum, en þessi leið er fjárhagslega heilbrigð,“ útskýrir Haukur og ítrekar hvernig Indó hafi hagsmuni heimila og einstaklinga ávallt í fyrsta sæti.