Enn ein úthlutunarnefnd ríkisins?

Landsfundur Flokks fólksins hyllir ákaft leiðtoga sinn, Ingu Sæland.
Landsfundur Flokks fólksins hyllir ákaft leiðtoga sinn, Ingu Sæland. mbl.is/Ólafur Árdal

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Landsfundi Ingu Sæland er nú loksins lokið, eftir áralanga bið. Eftir fundinn liggja fyrir miklar stjórnmálaályktanir þar sem einna helst er ákveðið að stefna að því að breyta Landsbankanum í „samfélagsbanka“, eins og það er orðað. Hvað þýðir að flokkurinn ætli að stefna að þessu markmiði, er hann að berjast fyrir þessu eða ekki? Hvað þýðir þessi skilgreining síðan fyrir Landsbankann og samfélagið í heild?

Það sem eflaust er átt við er að stjórnmálamenn fái til sín enn meira vald yfir bankakerfinu. Geti þannig, með því að endurskilgreina rekstur félags í eigu ríkisins, stýrt lántöku og aðgerðum bankans. Er stjórnmálamönnum treystandi þegar kemur að bankarekstri þegar komið hefur í ljós að leikreglur samfélagsins virðast ekki eiga við um þá?

Inga Sæland skilgreinir sig síðan sem einhvers konar friðardúfu í einni ályktuninni. Getur eflaust við það verkefni fengið Ástþór Magnússon til liðs við sig og Frið 2000. Árangurinn verður líklega ekki síðri.

Það er hið minnsta ljóst, miðað við hótanir síðustu vikna, að enginn tengdur þeim sem Inga Sæland og hennar friðardúfur skilgreina sem óþægan ljá í þúfu munu fá fyrirgreiðslu í nýja samfélagsbankanum. Hvernig fer þessi stefna líka saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að selja hlut sinn í Íslandsbanka?

Flokkurinn ætlar jafnframt að byggja upp nýtt húsnæðiskerfi þar sem stjórnmálamennirnir munu stýra uppbyggingunni og úthlutun en ekki markaðurinn. Flokkurinn ætlar að beita sér fyrir efnahagsstefnu sem „tryggir hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta“. Allir flokkar landsins eru með það að markmiði. Réttara væri að flokkurinn skilgreindi hvernig hann ætlar að ná þessu markmiði. Í ölli falli treystir flokkurinn ekki Seðlabankanum í því verkefni ef tekið er mið af árásum á hann af einni helstu friðardúfu flokksins, Ragnari Þór Ingólfssyni.

Forgangur heimila og einstaklinga skal vera á raforku er síðan enn ein ályktunin, líklega þannig að stjórnmálamenn ákveði hver fái aðgang að raforkunni. Miðað við það sem á undan er gengið verður almenningur töluvert neðar í þeirri úthlutun en vinir og ættingjar flokksins.

Það er öllum ljóst að stjórnmálamenn eru ekki hæfastir til að stýra markaðnum, hvort sem það er með rekstri banka, uppbyggingu húsnæðis eða úthlutun raforku. Slík verkefni hafa öll beðið skipbrot í höndum stjórnmálamanna. Fólk sem býr ekki til nein verðmæti heldur endurúthlutar eftir eigin geðþótta þeim verðmætum sem markaðurinn myndar hefur engan skilning á verðmætasköpun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK