Færeyska skipafélagið Smyril Line Cargo hefur eflt stöðu sína í vöruflutningum til og frá Íslandi með nýju skipi ásamt uppbyggingu í Þorlákshöfn. Smyril Line hefur vaxið mikið á undanförnum árum og vinnur nú að næsta stóra skrefi í þróun sinni með tilkomu nýs skips sem eykur flutningsgetu félagsins.
Í desember 2023 bætti Smyril Line Cargo við skipinu M/V Glyvursnes, sem leysti af leiguskipið M/V Mistral. Í kjölfarið var skipið M/V Lista leigt nú í ársbyrjun til að leysa M/V Glyvursnes tímabundið af, en það er í vélarupptekt. M/V Lista er sérhæft ekjuskip sem getur einnig tekið gáma og er 193 metrar að lengd. Nýja skipið tvöfaldar flutningsgetu miðað við núverandi skip félagsins.
Óskar Sveinn Friðriksson, framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækið sé með í smíðum tvö ný og umhverfisvæn ekjuskip sem verða afhent um mitt næsta ár. Hann segir skipin vera sérstaklega hönnuð fyrir siglingar á Norður-Atlantshafi, munu draga úr eldsneytisnotkun um 60% og vera með stærri eldsneytistanka fyrir notkun metanóls, sem minnkar losun koldíoxíðs verulega.
„Við höfum á síðustu árum lagt mikla áherslu á að þróa sjálfbærari lausnir í flutningum. Nýju skipin verða 190 metrar að lengd og sennilega þau stærstu í áætlunarflutningum til Íslands. Þessi skip eru einnig sérstaklega hönnuð fyrir aðkomu og aðstæður í Þorlákshöfn,“ segir Óskar.
Hann segir félagið ætla að hefjast handa á þessu ári við byggingu á 3.000 fermetra vöru- og kæligeymslu í Þorlákshöfn, sem mun auðvelda vörumeðhöndlun og bæta þjónustu fyrirtækisins við viðskiptavini.
„Við höfum átt mjög gott samstarf við Sveitarfélagið Ölfus. Þá má alveg segja að Smyril Line hafi átt sinn þátt í því að setja Þorlákshöfn á kortið sem flutningshöfn á Íslandi. Með stækkun skipaflota okkar mun höfnin fá lengri viðlegukant og aukið snúningsrými fyrir stærri skip. En vandamálið í Þorlákshöfn í dag er plássleysi. Við erum með athafnasvæði víðs vegar í Þorlákshöfn. Til dæmis er tollasvæðið girt af við smábátahöfnina, svo erum við að byggja þar rétt hjá nýju geymsluna. En þetta tekur tíma og sveitarfélagið hefur staðið sig mjög vel í því að stækka höfnina og þetta er orðin allt önnur höfn en hún var fyrir nokkrum árum,“ segir Óskar.
Að sögn Óskars hefur rekstur Smyril Line á Íslandi vaxið hratt undanfarin ár. Til að mynda hefur vöxturinn frá 2016 numið að meðaltali 20% á ári í tonnum talið. Hann segir aukninguna meðal annars tilkomna af örum vexti fiskeldis á Íslandi, ásamt vexti í innflutningi á almennum vörum en flutningar á afurðum í þessum geira hafa margfaldast.