Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir ekki rétt sem haldið sé fram að aðild að ESB eða upptaka evru leiði til þess að markaðsvextir á Íslandi verði eins og í helstu ESB-löndum, þar með talið í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi.
Markaðsvextir til fyrirtækja og heimila í aðildarlöndum ESB, jafnvel þeirra sem hafa tekið upp evru, séu langt frá því að vera þeir sömu og munur á lægstu og hæstu vöxtum mikill.
Vextir til húsnæðiskaupa séu sömuleiðis mjög breytilegir milli aðildarlanda ESB, þar með talið þeirra sem hafa tekið upp evru. Því sé ekki rétt sem stundum sé fullyrt að vextir af húsnæðislánum séu þeir sömu á evrusvæðinu.
Um það vitni gögn frá Seðlabanka Evrópu, en mikill hlutfallslegur munur sé á hæstu og lægstu húsnæðisvöxtum á evrusvæðinu. Hefur munurinn á lægstu og hæstu vöxtum minnst verið tæplega 50% frá ársbyrjun 2003 en mestur orðið tæplega 350% árið 2019.
Þessar staðreyndir sýni að því fari víðs fjarri að einhverjir einir lágir vextir séu til húsnæðislána á evrusvæðinu og Ísland muni með því einu að taka upp evru njóta þeirra vaxta.
Ítarlega er fjallað um málið í ViðskiptaMogganum í dag.