Hildur Einarsdóttir er nýr forstjóri Advania á Íslandi. Hún tekur við starfinu af Ægi Má Þórissyni, sem gegnt hefur starfinu í tæp tíu ár en tekur nú við lykilhlutverki í framkvæmdastjórn Advania-samstæðunnar.
Í tilkynningu frá Advania segir að Hildur sé reynslumikill stjórnandi og leiðtogi. Fyrr í þessum mánuði hafi hún látið af störfum sem framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs hjá Emblu Medical – áður Össuri – þar sem hún starfaði í 16 ár. Hún hafi víðtæka reynslu og þekkingu á nýsköpun, stefnumótun og alþjóðlegum sölu- og markaðsmálum.
„Það er mikill heiður að fá tækifæri til þess að starfa fyrir jafn metnaðarfullt félag og Advania. Ég er full tilhlökkunar að kynnast nýjum samstarfsfélögum og þeim fjölmörgu viðskiptavinum sem nýta sér lausnir og þjónustu Advania,“ er haft eftir Hildi í tilkynningunni.
Við ráðninguna stígur Ægir Már Þórisson úr forstjórastólnum og tekur að sér að leiða mannauðs- og vinnustaðamenningu félagsins þvert á lönd og markaði. Starfsmenn Advania eru nú ríflega fimm þúsund talsins, á 53 starfsstöðvum í níu löndum.
„Uppgangur félagsins hefur verið ótrúlegur undanfarin ár og Advania er orðið stærsta óskráða upplýsingatæknifélag Evrópu, með ársveltu upp á 250 milljarða króna,“segir Ægir.