Nær þriðjungur kemur í Kerið

Birta Ísólfsdóttir, framkvæmdastjóri áfangastaða hjá Arctic Adventures.
Birta Ísólfsdóttir, framkvæmdastjóri áfangastaða hjá Arctic Adventures. Eyþór Árnason

Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hyggst ráðast í uppbyggingu síðar á þessu ári við bæði Kerið í Grímsnesi og Fjaðrárgljúfur á Suðausturlandi, skammt frá Kirkjubæjarklaustri.

Á báðum stöðum stendur til að byggja þjónustumiðstöð með kaffihúsi, verslun og salernisaðstöðu, og stækka bílastæði.

Áfangastaðirnir tveir eru í eigu Arctic Adventures en fyrirtækið á einnig og rekur Raufarhólshelli skammt frá Þorlákshöfn, íshellinn Into the Glacier í Langjökli og Óbyggðasetrið í Fljótsdal á Austurlandi.

Birta Ísólfsdóttir, framkvæmdastjóri áfangastaða hjá Arctic Adventures, segir að lengi hafi verið mikil umræða um bætta aðstöðu á áfangastöðum og þá einkum salernisaðstöðu. „Það er frábært að sjá þetta núna verða að veruleika.“

Hún segir að deiliskipulag fyrir uppbyggingu við Fjaðrárgljúfur sé tilbúið en deiliskipulag fyrir Kerið ætti að klárast fljótlega. „Við erum að klára deiliskipulagið núna. Við þurftum að færa staðsetningu hússins frá fyrra skipulagi.“

Gjaldtaka hefur verið við Kerið um árabil en síðan 2023 við Fjaðrárgljúfur.

Tölvuteiknuð mynd af þjónustumiðstöðinni við Kerið í Grímsnesi.
Tölvuteiknuð mynd af þjónustumiðstöðinni við Kerið í Grímsnesi. Tölvuteikning/Arkís

Birta segir að markmiðið sé að byggingarnar falli vel að landslaginu og í tilviki Kersins að þær trufli ekki útsýni frá veginum. „Þetta verða umhverfisvænar byggingar úr vistvænum efnum. Við Kerið viljum við nota rauðamölina á staðnum og láta hana ná upp að nýja húsinu. Einnig viljum við nýta efnivið úr nágrenninu í klæðningar ef nokkur kostur er, helst frá skógrækt Árnesinga.“

Segja frá sögunni

Um hönnun Kersins sér arkitektastofan Arkís en óvíst er hver kemur til með að hanna breytingarnar hjá Fjaðrárgljúfri. „Hugmyndin er að vera með sýningu í Fjaðrárgljúfri og segja sögu svæðisins. Það er ekki langt síðan síðustu ábúendurnir fluttu. Það eru til dæmis til skemmtilegar sögur af því hvernig þeir böðuðu sig í hverri viku í læknum sem rennur í gegnum gljúfrið.“

Um aðsókn á staðina tvo segir Birta að 28% allra ferðamanna sem komi til Íslands sæki Kerið heim, eða í kringum 600 þúsund manns. Í Fjaðrárgljúfur koma í kringum 300 þúsund manns á ári.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK