Hagnaður eftir skatta hjá Skaga nam 2.258 milljónum króna samanborið við 1.832 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins sem birt var fyrir skömmu.
Áframhaldandi tekjuvöxtur í var í tryggingastarfsemi með 10,2% vöxt milli ára. Kostnaðarhlutfall fer lækkandi og samsett hlutfall í takt við markmið eða 94,9% smanborið við 99,5% á síðasta ári.
Hreinar tekjur í fjármálastarfsemi nema 2.344 m.kr. á árinu og vaxa um 91%% milli ára í pro-forma samanburði.
Ávöxtun af fjáreignum, sér í lagi skráðum hlutabréfum, tók við sér á fjórða ársfjórðungi en óskráð hlutabréf lita afkomu fjárfestinga fyrir árið í heild.
Arðsemi eigin fjár var 10,8% á ársgrundvelli samanborið við 10,2% á síðasta ári. Eigið fé samstæðu nemur 22,3 ma.kr.
Haft er eftir Haraldi Þórðarsyni forstjóra Skaga í tilkynningu að árið 2024 hafi verið fyrsta heila rekstrarár Skaga og ánægjulegt hati verið að sjá að megin markmiðum sem voru sett fyrir árið var náð.
„Grunnrekstur á öllum starfssviðum samstæðunnar batnaði á sama tíma og markviss skref voru tekin í átt að framtíðarsýn félagsins. Breyttar áherslur í rekstri VÍS skiluðu sér í miklum tekjuvexti, aukinni arðsemi og sókn í markaðshlutdeild á árinu. Fjármálastarfsemin óx einnig umtalsvert á síðasta ári, bæði með innri- og ytri vexti og skilaði jákvæðri afkomu á tímabilinu. Með innkomu Íslenskra verðbréfa á fjórða ársfjórðungi jukust eignir í stýringu innan samstæðunnar um ríflega 100 milljarða og stóðu í tæplega 230 milljörðum í lok árs. Um áramótin lauk formlega flutningi tryggingarekstrar í dótturfélagið VÍS tryggingar hf. og er samstæðan því komin í sitt framtíðarhorf. Á árinu 2024 tókum við því markviss skref í átt að langtímamarkmiðum okkar og það er óhætt að segja að við séum á góðri leið," er haft eftir Haraldi í tilkynningu.