Samkvæmt tilkynningu hefur Landsbankinn klárað kaupin á TM og félagið verður rekið sem dótturfélag Landsbankans.
Umsamið kaupverð samkvæmt kaupsamningi var 28,6 milljarðar króna. Í tilkynningu er ítrekað að endanlegt kaupverð verði aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá 1. janúar 2024 til afhendingardags. Hækkun á efnislegu eigin fé TM á tímabilinu 1. janúar 2024 til 31. desember 2024 nemur um 3,7 milljörðum króna (hagnaður tímabilsins, leiðrétt fyrir breytingum á óefnislegum eignum) og er heildarkaupverð með kaupverðsaðlögun til 31. desember 2024 því um 32,3 milljarðar króna.
Í tilkynningu er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans:
„TM er öflugt tryggingafélag með frábæru starfsfólki sem býr yfir mikilli þekkingu á tryggingamarkaði. Við hlökkum til að vinna með starfsfólki TM að því að þróa spennandi nýjungar. Saman búa Landsbankinn og TM yfir öflugu þjónustu- og söluneti, hvort sem er í gegnum reynslumikið starfsfólk, stafrænar lausnir eða í útibúum um allt land. Við sjáum fyrir okkur gott aðgengi viðskiptavina að vörum og þjónustu beggja félaga sem skapar bankanum og TM mörg tækifæri til sóknar. Við teljum auk þess að kaup bankans á TM muni hafa jákvæð áhrif á rekstur bankans, fjölga tekjustoðum og auka ávinning eigenda bankans til framtíðar. Landsbankinn og TM verða betri saman!“