Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Frásögnin hefst í Washington, en þær fréttir fóru á kreik fyrir helgi að óvænt breyting hefði orðið á dagskrá Kennedy Center, og fyrirhugaðir tónleikar Hommakórs Washingtonborgar (e. Gay Men‘s Chorus of Washington) hefðu verið settir á ís.
Kennedy Center er meiri háttar menningarstofnun og kjölfestan í óperu- og sinfóníuhljómsveitastarfi Bandaríkjanna en þar hafa fulltrúar demókrata verið við völd um árabil og listrænar áherslur stofnunarinnar borið þess greinileg merki.
Trump hróflaði ekki við Kennedy Center þegar hann var síðast forseti, en í þetta skiptið lét hann það vera eitt af sínum fyrstu verkum að sópa út allri stjórninni, en það má hann því að stofnunin er að stórum hluta á framfæri hins opinbera. Núna ráða repúblíkanar ferðinni og skipaði Trump sjálfan sig stjórnarformann, sem er óvænt vending ef haft er í huga að í síðustu forsetatíð sinni fór Trump ekki á eina einustu sýningu í húsinu „því það var ekkert þar sem mig langaði að sjá“ – sagði hann.
Trump hefur ákveðinn smekk á menningu og listum og hefur hann kvartað yfir því að viðburðirnir hjá Kennedy Center hafi markast um of af vælumenningu (e. woke) og neikvæðni í garð Bandaríkjanna, og kominn tími á eitthvað annað og betra.
Engum þarf að koma á óvart að bandaríska menningarelítan hallar öll langt til vinstri og var að vonum ósátt með þetta nýjasta útspil Bandaríkjaforseta. Hrokinn skein í gegn hjá blaðamanni New York Times sem fjallaði um málið og ritaði að nú mætti allt eins vænta þess að kántrítónlist yrði gert hátt undir höfði hjá Kennedy Center. Jeminn eini!
Það virðist hvergi hafa komið fram nákvæmlega hvers vegna hommakórinn var afbókaður, en tónleikarnir áttu að vera hluti af hinsegin hátíðinni World Pride 2025 sem haldin verður í Washington frá 17. maí til 8. júní. Hins vegar stóð ekki á viðbrögðunum, og fannst mér mjög lýsandi að sjá hvað nokkrir íslenskir spekúlantar höfðu að segja um málið í þræði á Facebook: „Sturlunin og ofbeldið er rétt að byrja.“ „Fasistar eru við völd!“ „Svona byrja bókabrennurnar.“
Það er merkilegt hvernig vinstrimenn um allan heim virðast bókstaflega í taugaáfalli yfir kjöri Trumps og þeirri hægrisveiflu sem er að eiga sér stað í stjórnmálunum víða á Vesturlöndum. Sumt af þessu fólki virðist – grínlaust – búast við því að það sé bara tímaspursmál hvenær ríkisstjórn Trumps muni byrja að smala fólki í útrýmingarbúðir.
Þetta fólk sem heldur í fullri alvöru að fasistar séu komnir til valda er reyndar sama fólkið og hafði ekkert út á það að setja þegar stjórnvöld, hér um árið, gerðu hvað þau gátu til að útskúfa og klekkja á þeim sem ekki vildu þiggja kórónuveirubóluefnið.
En hver er það þá sem stýrir Kennedy Center fyrir hönd Trumps, og ætlar greinilega að nota völd sín þar til að níðast á minnihlutahópum og afmá hinsegin fólk úr bandarísku menningarlífi? Hvaða fordómafulli hrútur og hommahatari ætli það sé?
Það er enginn annar en Richard Grenell en hann er harður nagli og mikill reynslubolti úr pólitíkinni; fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi og fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna. Grenell er reyndar ekki með meiri fordóma en svo að hann var á sínum tíma ötull talsmaður þess að gera hjónabönd samkynhneigðra lögleg í Bandaríkjunum.
Enda er hann sjálfur hommi.
Það er ekki bara í Bandaríkjunum að uppljómaðir vinstrimenn furða sig á þróuninni og dynja áföllin á þeim hvert á fætur öðru.
Fyrst mætti J.D. Vance á Öryggisráðstefnuna í München og hélt þrumuræðu þar sem hann sendi þjóðum Evrópu nokkur fyllilega verðskulduð skot fyrir að sverfa að málfrelsinu og hafa afskipti af lýðræðislegum kosningum í álfunni. „Það hvað fólk hugsar, hvernig því líður og hverju það trúir er ekki eitthvað sem hægt er að breyta með valdi,“ sagði hann og minnti líka á að innflytjendastefnu Evrópu hefðu fylgt ákveðin vandamál, sem hefðu m.a. birst í röð mannskæðra hryðjuverka að undanförnu.
Þá benti Vance á að það verði að leyfa ólíkum röddum að heyrast og varaði hann við að sjálft lýðræðið gæti verið í húfi ef þeir sem fara með völdin líta svo á að tilteknar skoðanir, áhyggjur og óskir milljóna kjósenda séu á svo lágu plani að það megi afskrifa þær fyrir fram.
Frekar en að líta inn á við, og athuga hvort Vance hefði eitthvað til síns máls, brást evrópska valdaelítan ókvæða við og fann ræðu varaforseta Bandaríkjanna allt til foráttu.
Trump bætti svo um betur, með því að ýja að því að Bandaríkin myndu ekki endilega koma Evrópu til bjargar ef Rússland færði sig upp á skaftið. Ég þarf að gæta mín á að vera ekki of meðvirkur með Trump í mestu vitleysunni, en ég les þannig í atburðarásina síðasta hálfa mánuðinn að Trump sé að reyna að mýkja Pútín, og finna boðlega leið fyrir ráðamenn í Rússlandi út úr átökunum í Úkraínu. Auðvitað munu Bandaríkin alltaf standa með vinum sínum í Nató, en með því að gefa annað í skyn er hægt að slá aðeins á það ofsóknaræði sem plagar karlana í Kreml og litar alla hugsun þeirra í varnarmálum.
Með því að hnýta í Selenskí er Trump líka að bjóða honum útgönguleið, því nú getur Volodymyr kennt Bandaríkjunum um að hafa þurft að sætta sig við friðarsamning sem felur í sér ákveðna eftirgjöf og fellur ekki að ýtrustu kröfum Kænugarðs – því Trump hafi gripið fram fyrir hendurnar á honum.
Bráðum kemst á friður, og er lítil hætta á að Rússland verði til vandræða í bráð. Það er búið að þurrausa rússneska herinn, hagkerfið er í rúst, hæfasta og snjallasta fólkið hefur flúið land, hergagnaframleiðslan er í molum, olíu- og gasiðnaðurinn lemstraður og Evrópa mun aldrei aftur hleypa Pútín inn í hlýjuna.
Þrátt fyrir það kraumar á ráðamönnum í Evrópu, sem varð samt ekkert ágengt þau þrjú ár sem þeir höfðu til að binda enda á átökin. Hvað verður það næst hjá Trump? Kántrítónlist?
Og svo mætti Alice Weidel á svæðið og leiddi AfD-flokkinn til mikils sigurs í þýsku þingkosningunum. Alls staðar í gamla Austur-Þýskalandi – nema auðvitað í Berlín – var AfD langvinsælastur á meðal kjósenda og víða með yfir 40% fylgi. Nær alls staðar í vesturhlutanum var AfD næstærstur á eftir Kristilegum demókrötum, og fylgið á bilinu 20-25%.
Uppljómaðir álitsgjafar fórna höndum því AfD er víst öfgahægriflokkur af verstu sort og hreinlega á pari við nasistaflokkinn, svo að auðvitað verður þeim ekki hleypt í ríkisstjórn.
Ég er fjarri því sammála AfD í öllum málum – þó það nú væri – en flest í stefnuskrá flokksins hefði ekki þótt sérstaklega langt til hægri fyrir aldarfjórðungi. Ef Ronald Reagan myndi skyndilega birtast aftur við Brandenbúrgarhliðið í Berlín myndi honum þykja pólitíska línan hjá AfD frekar mjúk, ef eitthvað er. Sjálf lýsir hin geðþekka Weidel flokki sínum sem íhaldssömum frjálshyggjuflokki.
Talandi um andúð á minnihlutahópum, þá er Weidel lesbía, í sambúð með konu sem ættuð er frá Srí Lanka og eiga þær tvo syni. Hefur stjórnmálaþátttaka Weidel einmitt litast af áhyggjum af að innstreymi innflytjenda sé byrjað að valda þeirri leiðinlegu breytingu á menningu Þýskalands að samkynhneigðir þurfi sums staðar að sýna aðgát í sínu daglega lífi og ekki láta of mikið á sér bera – svo ekki sé sterkar að orði komist.
Það má alveg deila um þær lausnir sem AfD leggur til, en má ekki líka taka áhyggjur stuðningsmanna flokksins alvarlega?
Reyndar á það við um AfD að leiðtogar flokksins reyna að milda stefnuna á meðan aðilar í grasrótinni reyna að magna upp öfgarnar. Vandinn við flokka langt til hægri er nefnilega að þeir sitja oft uppi með þá sem ég hef kallað „ruglaða hægrið“; karla og konur með lausar skrúfur sem festa sig við flokkana eins og hrúðurkarlar á steypireyði. Raunar vil ég meina að það geri bæði hægri- og vinstriflokka heilbrigðari ef mestu rugludallarnir geta fundið sér samastað hjá alvöru öfgaflokkum alveg úti á jaðri stjórnmálanna þar sem hægt er að geyma þá í hálfgerðri sóttkví.
Þetta var vandinn hjá Pim Fortuyn í Hollandi, og líka hjá Nigel Farage í Bretlandi. Vandi bandaríska Demókrataflokksins í dag er af svipuðum meiði, því þar var öfgavinstrinu leyft að smeygja sér inn í kjölfar Occupy Wall Street-tímabilsins, og fljótlega náðu öfgarnar nógu sterkum tökum á flokknum til að færa hann langt frá miðjunni – og langt frá hinum almenna kjósanda. Sést þessi hliðrun flokksins auðvitað best á því að mörg þekktustu nöfnin í ríkisstjórn Trumps eru fyrrverandi demókratar sem áttu ekki lengur samleið með flokknum þegar hann var kominn út á jaðarinn. Þetta er fólk á borð við Robert F. Kennedy, Tulsi Gabbard, Elon Musk – að ógleymdum Trump sjálfum!
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.