Málmleitarfyrirtækið Amaroq Minerals tilkynnti í vikunni rannsóknarniðurstöður síðasta árs úr Nalunaq-námunni á Grænlandi en þar leitar félagið meðal annars að gulli.
Samkvæmt tilkynningu var rannsóknunum beint að því að stækka svokallað Mountain Block-svæði sem og svæðið í framhaldi af Target Block.
Félagið stóð að því að bora í gegnum alls 2.985 metra í 11 borholum af Target Block, auk um 374 metra af neðanjarðarborunum í Mountain Block. Auk þess voru tekin 203 sýni vestanmegin fjallsins þar sem aðalæðin og svokölluð 75-æð koma upp á yfirborðið.
Neðanjarðarboranir hafa veitt verðmætar upplýsingar um áframhald gullæðarinnar og sýna fram á háan styrkleika gulls í Mountain Block, þaðan sem vinnsla efnis fer fram um þessar mundir. Haft er eftir vísindamönnum Amaroq að niðurstöðurnar staðfesti jarðfræðilíkan félagsins af Nalunaq. Neðanjarðarboranir hafi skilað góðum niðurstöðum með háum styrkleika gulls.
Félagið hyggst uppfæra auðlindamat Nalunaq-námunnar í lok fyrsta ársfjórðungs, byggt á niðurstöðum rannsóknanna.
Morgunblaðið leitaði eftir viðbrögðum við þessum niðurstöðum hjá Eldi Ólafssyni forstjóra félagsins, sem nefndi:
„Við leitumst við að bora holur upp og niður fjallið. Það gerum við til að reyna að staðfesta magn og líftíma námunnar. Því lengri sem líftíminn er því verðmætari er náman. Einnig gera boranir okkur kleift að setja fram rekstrarforsendur fram í tímann og gera betri áætlanir. Þessar niðurstöður styðja báða þessa þætti.“
Greinin birtist í Morgublaðinu.