Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, telur rétt að leiðrétta rangfærslur um upptöku evru. Óraunhæft sé að Ísland geti tekið upp evru fljótlega eftir inngöngu í ESB.
Tilefnið er að Evrópumálin eru aftur komin á dagskrá en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu skuli fara fram eigi síðar en árið 2027.
Ragnar fjallaði um hagþróun á evrusvæðinu í fyrirlestri á dögunum sem er endursagður í ViðskiptaMogganum í dag.
Ragnar rifjar upp að til að verða aðili að evrusamstarfinu þurfi að mæta vissum þjóðhagslegum skilyrðum sem lúta að verðbólgu, halla á opinberum rekstri, gengisstöðugleika og vöxtum til langs tíma.
Meðal skilyrða evruupptöku sé að verðbólga sé innan við 1,5% meiri en minnst gerist í evrulöndum, að langtímavextir séu ekki meira en 2% yfir því sem lægst er í evrulöndum og að umsóknarríkin búi við gengisstöðugleika miðað við evru. Mikið vanti upp á að Ísland fullnægi þessum skilyrðum.
Þá sé rétt að horfa til biðtímans. Nú séu 20 af 27 aðildarríkjum ESB með evru. Eftir að evran var tekin upp 1999 hafi 13 ríki gengið í sambandið en Bretar gengið úr því. Átta af þessum 13 ríkjum hafi tekið upp evru og meðalbiðtími þeirra eftir að vera tekin í evrusamstarfið verið 6,6 ár.
Þau fimm aðildarríki ESB sem sækjast eftir að verða aðilar að evrusamstarfinu – Svíþjóð og Danmörk hafa kosið að standa utan þess – hafi enn ekki uppfyllt skilyrði þess að taka upp evru. Meðalbiðtími þeirra sé nú þegar orðinn liðlega 16 ár og lengist með hverju árinu.
Fyrir vikið sé óraunhæft að Ísland fái að taka upp evru fyrr en að mörgum árum liðnum, jafnvel allt að 20 árum, eftir aðild að ESB.
Ítarlega er fjallað um málið í ViðskiptaMogganum.