Svipmynd: Hækkanir bitna illa á fjölmiðlum

Snorri segir miklar kostnaðarhækkanir bitna á öllum rekstri sem reiði …
Snorri segir miklar kostnaðarhækkanir bitna á öllum rekstri sem reiði sig á áskriftartekjur, líkt og fjarskipta- og símafyrirtæki gera. Ljósmynd/Anton Brink

Snorri Jakobsson, hagfræðingur og eigandi Jakobsson Capital, nefnir Gylfa Magnússon prófessor í hagfræði sem helsta örlagavaldinn þegar hann valdi hagfræði fremur en læknisfræði á sínum tíma. Hann segir kostnaðarhækkanir fara illa með allan rekstur sem reiða sig á áskriftartekjur og séu fjölmiðla- og símafyrirtæki góð dæmi um það.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Það eru tvímælalaust verðbólgan og kostnaðarhækkanir umfram verðlag. Miklar kostnaðarhækkanir bitna illa á öllum rekstri sem reiðir sig á áskriftartekjur.

Fjölmiðla- og símafyrirtækin eru hér gott dæmi en stærsti hluti kostnaðar er launakostnaður og það er ekki hægt að velta kostnaðarhækkunum þar beint út í verðlag enda er samkeppni mikil á þessum markaði og samningar til lengri tíma.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Það er hvorki gáfulegt né til eftirbreytni. Ég spila Pac-Man og ríf í lóðin á skrifstofunni. Það má segja að rekstur sé eins og Pac-Man-leikur; éta eða vera étinn! Það þarf svo líka að halda við öðrum vöðvum líkt og gráa vöðvanum.

Ég þrífst á sífelldum áskorunum og að taka að mér krefjandi verkefni. Mantran sem ég þarf að fara með alla daga er „Guð hjálpar þeim ekki sem hjálpa sér ekki sjálfir“.

Ef það er skortur á áskorunum koðnar maður einfaldlega niður. Það má segja að þetta sé eins og í öllum íþróttum; ef það eru ekki æfingar og þú ögrar sjálfum þér verða engar framfarir.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Við erum í miðju uppgjörstímabili svo það er mikið áreiti í augnablikinu, sérstaklega þegar félögin eru milli 20 og 25 sem við fylgjumst með. Félögin eru í sjö eða átta atvinnugreinum sem við þurfum að þekkja mjög vel, auk þess sem hraðinn er gríðarlegur. Fyrir utan það er smá stund milli stríða í augnablikinu. Ég er með mörg járn í eldinum eins og alltaf. Verkefnin koma þegar þau koma og jafnvel öll í einu.

Það verður töluverð áskorun að eyða frítíma við Eyjahafið. Við eigum íbúð með þaksvölum með „notagildi“ við Eyjahafið. Íbúðin er í bænum Fethiye sem liggur við margar fallegustu strendur Miðjarðarhafsins og er alveg við Ródos og Kos.

Það verður ekki þverfótað fyrir fornminjum, nokkur grafhýsi í götunni og eitt notað sem ör-hringtorg. Datcha-skaginn er í miklu uppáhaldi hjá mér. Á skaganum er einn best varðveitti bær frá tímum Forn-Grikkja, bærinn Knidos, sem er vart aðgengilegur nema á skútu. Einnig er fæðingarstaður jólasveins Pinara í miklu uppáhaldi.

Hvaða bók (eða hugsuður) hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Warren Buffet er sá hugsuður sem hefur mótað mig mest. Svo er það fyrsta kennslubókin
í hagfræði og Gylfi Magnússon. Ég vissi ekkert um hagfræði og hafði lítinn áhuga á fjárfestingum eða viðskiptum. Valið stóð á milli þess að fara í læknisfræði eða prófa eitthvað alveg nýtt eins og kvikmyndun eða hagfræði. Þetta er því svolítið mikið Gylfa að kenna.

Ég hreifst líka af svölum illmennum sem krakki og Arnold og Svarthöfði í miklum metum. Ætli framkoma, hegðun og groddahúmorinn sé ekki kominn þaðan. Já og svo náttúrlega Björn Steinar samstarfsfélagi minn fyrir að þola mig síðustu ár í vinnu.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Það þyrfti að vera meiri tími til þess. Til að halda þekkingu minni við þarf að fara út fyrir landsteinana en hún er mjög sérhæfð og fáir að pæla í sömu hlutum og ég. Les allar sérhæfðar fræðigreinar sem ég kemst yfir um það sem ég starfa við.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Það er einhvers staðar þar sem raunsæi, útsjónarsemi, þrautseigja og óhefðbundin hugsun koma þér langt. Ég fer sjaldan troðnar slóðir. Væri góður sem fúli gaurinn í nýsköpunarfyrirtæki. Já og svo væri ég frábær eilífðarstúdent í háskóla, fljótur setja mig inn í flókna hluti og finnst gaman að sökkva mér niður í þá.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Það er kannski of seint að byrja í læknisfræðinni núna? Ætli ég myndi ekki taka í staðinn bókmenntir eða sagnfræði.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Markaðurinn fyrir greiningar á Íslandi er agnarsmár og erfiður. Hann ber tæplega tvo hlutabréfagreinendur.

Hins vegar krefst fjöldi fyrirtækja sex hlutabréfagreinenda að lágmarki. Erlendis eru mörg smærri fyrirtæki í greiningu en markaðir eru 10 sinnum stærri. Ofan á það bætist að almennt eru höfundarréttarbrot ansi algeng á Íslandi.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK