Upplifðu raunverulegan áhuga Arion

Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka.
Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka. mbl.is/Eyþór

Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka segir í samtali við Morgunblaðið að upplifun stjórnenda bankans hafi verið sú að raunverlegur áhugi hafi verið af hálfu Arion á samrunaviðræðum við Íslandsbanka.

Í tilkynningu til Kauphallar síðastliðið fimmtudagskvöld kom fram að stjórn Íslandsbanka afþakkaði boð um samrunaviðræður við Arion. Stjórn Íslandsbanka barst bréf frá bankastjóra og stjórnarformanni Arion banka 14. febrúar síðastliðinn þar sem óskað var eftir því að Arion og Íslandsbanki hæfu samrunaviðræður.

„Okkar upplifun var sú að raunverulegur áhugi hafi verið á samrunaviðræðum og hafði Arion lagt í töluverða vinnu við þeirra skoðun. Á sama tíma ýtti þetta frumkvæði Arion undir samtal um þróun bankakerfisins og hvernig ná megi fram enn frekari hagræðingu öllum til hagsbóta,“ segir Jón Guðni.

Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka, var spurður í samtali við ViðskiptaMoggann sem kom út 19. febrúar síðastliðinn hvort það væri alvara á bak við bréf stjórnar eða hvort frekar ætti að líta á þetta sem ábendingu til ráðamanna. Svar Benedikts var afdráttarlaust: „Að sjálfsögðu er full alvara á bak við þessa tilkynningu. Það er ekki léttvæg ákvörðun að senda hana út og stjórnin telur þetta mögulegt.“

Jón Guðni segir að samtalið snúist t.a.m. um það að minnka eða útrýma gullhúðun við innleiðingu regluverks, bæði til framtíðar litið en einnig endurskoða þá þætti sem þegar hafa verið innleiddir og valda auknum kostnaði í fjármálakerfinu. Kröfur um eigið fé séu afar háar á Íslandi og bankinn eigi stöðugt í samtali við Seðlabankann um þær. Þá segir hann einnig að rétt sé að skoða frekara samstarf bankanna varðandi innviði, t.a.m. svikavarnir, varnir gegn peningaþvætti og ýmis tölvukerfi.

Nauðsynlegt að taka fyrir gullhúðun

Líkt og kemur fram í tilkynningu bankans tekur stjórn bankans undir ýmis sjónarmið í bréfi Arion um mögulegt hagræði sem gæti hlotist af samrunum á innlendum bankamarkaði. Hins vegar er það mat stjórnar Íslandsbanka að mjög ólíklegt sé að sá samruni sem stjórn Arion leggur til fáist samþykktur af Samkeppniseftirlitinu við núverandi aðstæður nema gegn ströngum og afar íþyngjandi skilyrðum. Íslandsbanki hefur markað sér mjög skýra stefnu þar sem áhersla er lögð á framsækni, arðsemi og enn betri þjónustu við viðskiptavini. Bankinn mun því einblína áfram á þá vegferð.

Jón Guðni segir að heilt yfir vonist bankinn til að evrópskt regluverk og þar með það íslenska verði einfaldað, frekar en það verði flækt frekar.

„Þá er nauðsynlegt að taka fyrir gullhúðun við innleiðingar á lögum og reglum í íslenskan rétt. Eins og fram hefur komið í umræðunni þá gilda hér sérstakar kvaðir á íslensk fjármálafyrirtæki sem skekkir samkeppnisstöðuna og það er von okkar að skattlagning og eiginfjárkröfur verði í samræmi við það sem þekkist hjá nágrannalöndum,“ segir Jón Guðni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK