Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda skrifar:
Málum vegna misnotkunar á veikindaréttinum, sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum, hefur farið mjög fjölgandi hjá lögfræðiþjónustu Félags atvinnurekenda á síðustu árum. Þetta eru annars vegar mál sem varða falskar veikindatilkynningar og í ýmsum tilvikum augljóslega tilhæfulaus læknisvottorð.
Hins vegar er um að ræða gríðarlega fjölgun á málum þar sem fólk skilar læknisvottorði um óvinnufærni vegna veikinda á uppsagnarfresti, þrátt fyrir að hafa verið heilsuhraust fram að því.
Síðarnefndu málin eru orðin svo algeng að halda má því fram að ákvæði kjarasamninga um gagnkvæman uppsagnarfrest vinnuveitanda og launþega séu að verða marklaus bókstafur. Það færist sífellt í vöxt að starfsmaður sem fær uppsagnarbréf – af hvaða ástæðu sem uppsögnin er – skili skömmu síðar eða jafnvel samdægurs læknisvottorði um óvinnufærni sem gildir út uppsagnarfrestinn, eða þá nýju og nýju vottorði allt þar til fresturinn er á enda.
Í einhverjum tilvikum skrifa heimilislæknar upp á vottorð um óvinnufærni vegna þess andlega áfalls sem uppsögnin er sögð hafa valdið, án þess að vart verði við að sjúklingurinn fái neina meðferð eða aðstoð vegna sinna andlegu veikinda.
Upp hafa komið hreint ótrúleg mál, þar sem fólk fær uppáskrifað frá lækni að það sé óvinnufært í aðalvinnunni sinni, þar sem því var sagt upp, en vinnufært í aukastarfi.
Lengi vel takmörkuðust þessi læknisvottorð á uppsagnarfresti við mál þar sem vinnuveitandi sagði starfsmanni upp, en á síðustu misserum höfum við séð dæmi um mál þar sem starfsmenn sem sögðu upp sjálfir skila vottorði um að þeir geti ekki unnið uppsagnarfrestinn. Af þeim fréttist síðan stundum að þeir séu komnir í önnur störf eða launuð verkefni.
FA efndi til félagsfundar um þessi mál síðastliðið haust, þar sem var fullt hús og heitar umræður um varnir atvinnurekenda gegn misnotkun á veikindaréttinum.
Þar kom meðal annars fram að þegar þau skilyrði, sem dómstólar hafa lagt til grundvallar við mat á læknisvottorðum, eru skoðuð er lykilatriði að vottorðið byggist á dagsettri skoðun læknis á sjúklingi.
Í sumum læknisvottorðum kemur ekkert fram um að læknir og sjúklingur hafi hitzt og þau hafa því ekkert gildi. Það gefur líka augaleið að rafræn „veikindavottorð“, sem fólk getur sjálft sótt sér á Heilsuveru, eru fullkomlega marklaus.
Í ljósi umræðu innan félagsins um þennan vanda spurði FA út í þessi mál í árlegri könnun meðal félagsmanna nú í febrúar. Spurt var um afstöðu til fullyrðingarinnar „falskar tilkynningar um veikindi eru algengar hjá starfsfólki í mínu fyrirtæki“.
Sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu sögðust 38% en rúmlega 34% ósammála eða mjög ósammála. Afgangurinn svaraði „hvorki né“ eða svaraði ekki.
Er sett var fram fullyrðingin „það er algengt í mínu fyrirtæki að starfsfólk á uppsagnarfresti fái læknisvottorð um að það sé óvinnufært“ sögðust tæplega 28% sammála eða mjög sammála en rúmlega 24% ósammála eða mjög ósammála.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.