Að mati Ragnars Árnasonar prófessors hefur upptaka hinnar sameiginlegu myntar ekki skilað tilætluðum árangri. Meðal annars hafi Evrópusambandið ekki þá efnahagslegu vigt í heimsbúskapnum sem að var stefnt enda hafi hagvöxtur í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu verið undir væntingum.
Samanburður á hagþróun á Íslandi og í þessum ríkjum sé Íslandi í hag. Landsframleiðsla á mann í aðildarlöndum ESB sé talsvert lægri en á Íslandi og hagvöxtur minni. Árið 2023 hafi kaupmáttarleiðrétt verg landsframleiðsla á mann þannig verið 24% hærri á Íslandi en í Evrópusambandinu og 19% hærri en í evrulöndunum.
Árlegur kaupmáttarleiðréttur jafnaðarhagvöxtur á mann á Íslandi frá árinu 2000 til ársins 2023 hafi verið talsvert meiri en í aðildarlöndum ESB, eða sem nemur 0,2% á ári, og miklu meiri en í evrulöndunum, eða 0,57% á ári.
Þótt svona munur í hagvexti virðist ekki mikill á einstöku ári skipti hann efnahagslegum sköpum milli þjóða þegar hann stendur í langan tíma. Þannig samsvari þessi munur á meðalhagvexti upp á 0,57% á ári 15% í vergri landsframleiðslu eftir 25 ár. Kjarni málsins sé þó sá að frá aldamótum, eftir að evran hóf göngu sína, hafi bilið í vergri landsframleiðslu á mann Íslandi og í evruríkjunum aukist mjög verulega.
Miðað við önnur iðnvædd ríki í Evrópu og í Norður-Ameríku hafi hagvöxtur í ESB frá árinu 2000 hins vegar verið sæmilegur. Ástæðan fyrir sæmilegum hagvexti í ESB sé fyrst og fremst góður hagvöxtur í nýjum aðildarríkjum bandalagsins en þau hafi verið tiltölulega fátæk fyrir. Hagvöxtur í kjarnaríkjum Evrópusambandsins, þar á meðal í evrulöndunum Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Hollandi og Belgíu, hafi verið miklu lakari.
Ítarlega var fjallað um málið í ViðskiptaMogganum í gær.