Örugg fæða á óvissutímum

Hjörtur Heiðar Jónsson, forstöðumaður hjá ALM Verðbréfum hf.
Hjörtur Heiðar Jónsson, forstöðumaður hjá ALM Verðbréfum hf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjörtur H. Jónsson, forstöðumaður hjá ALM Verðbréfum hf. skrifar:

Lengst af í Íslandssögunni voru Íslendingar aldrei fleiri en um það bil sextíu þúsund, en það var sá hámarksfjöldi sem landið gat fætt og klætt með nokkurn veginn sjálfbærum hætti. Á þessum tíma voru viðskipti við útlönd afar takmörkuð og meginatvinnugreinar landsmanna, sem voru landbúnaður og sjávarútvegur, þurftu að reiða sig á innlenda tækni og aðföng eingöngu.

Það var ekki fyrr en á nítjándu öldinni sem landsmönnum fór að fjölga eitthvað að ráði og ekki af alvöru fyrr en á tuttugustu öldinni en sú þróun var fyrst og fremst möguleg vegna mikillar framleiðniaukningar í grunnatvinnuvegum sem fylgdi innfluttri tækni og aðföngum.

Í dag búa tæplega fjögur hundruð þúsund manns á Íslandi og nokkuð augljós forsenda þess að það geti gengið upp er að allt þetta fólk hafi nóg að borða. Það að tryggja Íslendingum örugga fæðu er því mikilvægt viðfangsefni sem hefur verið nokkuð áberandi í þjóðfélagsumræðu undanfarinna ára. Sú umræða ristir reyndar ekki alltaf mjög djúpt og einkennist oftar en ekki af órökstuddum fullyrðingum um hvað sé mikilvægast fyrir fæðuöryggi landsmanna.

Alþjóðabankinn (World bank) skilgreinir fæðuöryggi þannig að allt fólk hafi á öllum tímum aðgengi að og fjárhagslega getu til að velja og afla öruggrar og næringarríkrar fæðu sem uppfyllir næringarþarfir þess og gerir því kleift að lifa virku og heilbrigðu lífi.

Alþjóðabankinn skilgreinir jafnframt fjórar meginstoðir fæðuöryggis sem eru framboð á fæðu, efnahagslegt og raunverulegt aðgengi að fæðu, nýting fæðunnar og stöðugleiki fyrrgreindra atriða yfir tíma, sem þýðir í grunninn að á hverjum tíma þurfi að vera stöðugt og tryggt framboð af hollri og næringarríkri fæðu sem allir geti nálgast og hafi efni á að kaupa.

Hvað varðar framboð á fæðu bendir Alþjóðabankinn á að framboðið ræðst af framleiðslu á fæðu, birgðastöðu og nettó niðurstöðu viðskipta inn og út af viðkomandi svæði, sem fyrir Íslendinga eru öll við útlönd.

Í umræðu undanfarinna missera hefur oftar en ekki verið einblínt á framleiðslu matvæla og ýjað að því að besta leiðin til að tryggja fæðuöryggi sé að tryggja og helst auka innlenda matvælaframleiðslu.

Það er þó ýmislegt sem flækir þessa mynd og ekki síst að innlend matvælaframleiðsla byggist að miklu leyti á innfluttri tækni og aðföngum. Öryggi innlendrar matvælaframleiðslu er því oftar en ekki lítið meira en öryggi erlendra aðfanga og ekki meira en ef við myndum flytja inn fullunna vöru í stað nauðsynlegra aðfanga til framleiðslunnar.

Mikil áhersla á innlenda matvælaframleiðslu og aðgerðir til að vernda hana hefur einnig leitt til þess að á Íslandi eru framleidd matvæli sem mun hagstæðara væri að framleiða annars staðar þar sem aðstæður eru betri og eru því dýrari en sambærileg matvæli sem hægt væri að flytja inn.

Jafnvel það mikið dýrari að þau geta vegið að annarri stoð fæðuöryggis sem er að allt fólk hafi efni á þeim mat sem það vill og þarf.

Óhagstæð framleiðsla innlendra matvæla er því ekki einungis vafasöm nýting á fjámagni og vinnuafli heldur getur hún beinlínis grafið undan matvælaöryggi, þvert á það sem oftast er haldið fram í umræðunni.

Það væri því heiðarlegra af þeim sem viðra skoðanir sínar í umræðu um innlenda matvælaframleiðslu að hætta að skýla sér á bak við illa grundaðar fullyrðingar um matvælaöryggi og tala frekar hreint út um þær raunverulegu ástæður sem að baki liggja.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK