Ísgöngin Into the Glacier eiga tíu ára afmæli í ár. „Göngin voru upphaflega með tíu ára líftíma en vegna góðs viðhalds hefur okkur tekist að lengja líf áfangastaðarins, og við erum bjartsýn á að hann lifi í mörg ár enn,“ segir Birta Ísólfsdóttir framkvæmdastjóri áfangastaða hjá Arctic Adventures, eiganda gangnanna, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Bráðnun og hreyfing jökulsins hafa áhrif á göngin, sem eru eins kílómetra löng að sögn Birtu.
Um horfur á komu ferðamanna í sumar segir Birta að tímabilið líti vel út. „Í byrjun síðasta árs höfðu jarðhræringar á Suðurnesjum áhrif á aðsókn til landsins, en svo varð viðsnúningur. Seinni hluti ársins var orðinn álíka góður og þegar best lét fyrir faraldurinn.“
Birta minnir að lokum á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir fjárhag Íslands. „Skattsporið er 200 milljarðar króna. Það eru ekki allir sem átta sig á því.“