Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur gefið út skýrslu um leigumarkaðinn, Vegvísi leigumarkaðar 2025. Í skýrslunni kemur fram að vægi leigumarkaðarins hafi aukist á síðustu tveimur áratugum.
Þar sé það einkum ör fólksfjölgun vegna fjölgunar innflytjenda ásamt hækkun húsnæðisverðs umfram leiguverð sem hafi aukið eftirspurn eftir leiguíbúðum. Leiguverð íbúða í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga hafi hækkað töluvert að raunvirði á síðustu misserum samhliða aukinni greiðslubyrði fasteignalána. Þó hafi leiguverð hækkað mun minna en fasteignaverð á síðustu tveimur áratugum.
Áhugavert er að sjá í skýrslunni að vísbendingar séu um að leiguverð muni hækka á næstu misserum þar sem hlutfall leiguverðs af fasteignaverði er sögulega lágt og framboð íbúðarhúsnæðis anni ekki eftirspurn.
Morgunblaðið hafði samband við Dreng Þorsteinsson hjá HMS: „Ástandið á íslenskum húsnæðismarkaði er alvarlegt og leigumarkaðurinn fer ekki varhluta af því. Það er von mín að vegvísirinn komi að notum við vinnu bráðaaðgerðahópsins sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í febrúar.“
Í skýrslunni er bent á tillögur til úrbóta, þar er helst að auka framboð íbúða og líta til þess að uppbygging taki mið af þörfum og stuðli að aðkomu lífeyrissjóða á leigumarkaðinn. Einnig þurfi húsnæðisstuðningur að vera markvissari. Tryggja þurfi að nýting íbúðarhúsnæðis sé til búsetu, bæði með því að endurnýta atvinnuhúsnæði í þeim tilgangi og með því að sporna við skammtímaútleigu íbúðarhúsnæðis. Að lokum segir að innleiða þurfi almenna skráningarskyldu húsaleigusamninga svo að aukin yfirsýn fáist yfir leigumarkaðinn.
Skýrsluhöfundar benda sérstaklega á að viðhorf á Íslandi til leigumarkaðarins sé almennt neikvætt, hér hafi almennt tíðkast að leiguíbúðir séu einungis tímabundið úrræði þeirra sem ekki eiga kost á að festa kaup á húsnæði.
„Miðað við núverandi ástand, fjölgun íbúa landsins og breytta samsetningu þjóðarinnar má draga þá ályktun að það að byggja dugi ekki eitt og sér. Horfa þarf einnig til þess að koma þeim íbúðum sem ekki eru nýttar til búsetu inn á leigumarkaðinn. Rýmka þyrfti fyrir umbreytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðir án þess að slakað sé á öryggiskröfum og einnig að horfa til annarra búsetuforma en þessara hefðbundnu,“ segir Drengur að lokum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu.