Sniðug ný hugbúnaðarlausn spratt upp úr starfsnámsdvöl nemanda við Háskólann í Reykjavík hjá Samskipum og gæti hugbúnaðurinn bráðum verið kominn í notkun víða um heim.
Um er að ræða kerfi sem heldur utan um lausavöruflutninga og bætir flæði upplýsinga, eykur skilvirkni og minnkar líkurnar á að sendingar verði fyrir hnjaski. Forritið hefur fengið nafnið LÓA sem vísar til íslenska mófuglsins en er líka skammstöfun á „Logistics Operations App“.
Rebekka Bjarnadóttir er leiðtogi umbóta og ferlaþróunar hjá Samskipum og hafði frumkvæði að því að HR og Samskip efndu til samstarfs um starfsnám árið 2022. Á þremur árum hafa fimm nemendur við háskólann haft viðdvöl hjá flutningafyrirtækinu og þar af var einn ráðinn til að starfa þar til frambúðar.
„Ég fékk sjálf að taka starfsnám í háskólanámi mínu í Bandaríkjunum og það hreinlega breytti lífi mínu. Þetta var svo dýrmæt reynsla að mig langaði að yfirfæra sömu nálgun á rekstur Samskipa og höfum við t.d. fengið til okkar nemendur í hagfræði, viðskiptafræði, verkfræði og stjórnun,“ segir Rebekka og undirstrikar að starfsnemunum sé gefið tækifæri til að sýna virkilega hvað í þeim býr. „Þau fá að taka virkan þátt í rekstrinum, eru virk í hugmyndavinnu og þróun og leggja sín lóð á vogarskálarnar við stefnumótun félagsins. Nemendurnir eru mjög ánægðir og þykir mikið varið í að fá að beita í atvinnulífinu því sem þau hafa lært af kennslubókunum.“
Rebekka segir að bæði séu nemendurnir ánægðir með reynsluna en að ávinningur Samskipa hafi líka verið mikill því þau verkefni sem nemendurnir hafa stungið upp á og leyst af hendi hafi bætt daglegan rekstur með ýmsum hætti. Nemendurnir mæti yfirleitt til leiks með ferska sýn á hlutina og nýja nálgun við vandamálin.
LÓA er gott dæmi um þetta en þar varð aðkoma starfsnema til þess að ákveðnir vankantar við lausavöruflutninga komu í ljós. Svo að lesendur geti glöggvað sig betur á vandanum þá má skipta gámaflutningum í heilgámaflutninga annars vegar og lausavöruflutninga hins vegar þar sem varningi úr ýmsum áttum er safnað saman í einn gám. Rebekka segir t.d. algengt að íslenskum innflutningsfyrirtækjum berist sendingar frá fjölda framleiðenda og taka þá erlend vöruhús eða birgjar við þessum sendingum – oft pallettu í senn – og safna svo saman í gám sem síðan er sendur til Íslands. Einstaklingar nota líka oft lausavöruflutninga til að koma búslóðum og smámunum á milli landa, og þá hentar þessi flutningsmáti vel fyrirtækjum sem stunda ekki það mikinn inn- eða útflutning að það borgi sig fyrir þau að flytja gámafylli í senn og mun heppilegra að nota safngáma.
Rebekka segir umhverfi heilgámaflutninga mjög tæknivætt og hægt að rekja ferðir gáma í hendur viðtakanda af töluverðri nákvæmni. Það sama hefur ekki verið hægt að segja um lausavöruflutningana en LÓA lagar það. „Hugbúnaðarlausnin felur í sér að hver palletta er merkt, skönnuð og mynduð og allar upplýsingar um ferðir sendingarinnar bókaðar í kerfi þar sem þær eru aðgengilegar birgjum okkar og starfsfólki,“ útskýrir Rebekka og bætir við að Samskip vinni núna að því með viðskiptavinum sínum að finna út hvernig þeim þyki best að þessum upplýsingum sé miðlað á þjónustuvef fyrirtækisins.
Að sögn Rebekku einfaldar LÓA pappírsvinnu og sparar bæði Samskipum og birgjum tíma sem færi annars í upplýsingagjöf og -öflun. „Þetta hefur útrýmt fjölda óþarfa símtala á milli okkar og birgjanna því núna er hægt að nálgast helstu upplýsingar á vefsíðu okkar. Þetta bætta aðgengi þýðir líka að við höfum betra ráðrúm til að þjónusta viðskiptavini okkar,“ segir hún.
„Bætt rakning auðveldar líka skipulagið við að koma réttum pallettum í réttan gám, sem þýðir að það þarf að flytja hverja einingu sjaldnar á milli staða en þar með er minni hætta á óhöppum og tjóni. Með því að ljósmynda hverja pallettu skapast líka meira gagnsæi og bætt aðhald. Við getum líka komið fyrr auga á mistök eða vandamál, og þurfa því viðskiptavinir t.d. ekki að bíða í viku eða tvær eftir því að uppgötva að rangur fjöldi palletta barst í vöruhúsið.“
LÓA hefur vakið athygli samstarfsaðila Samskipa erlendis sem glíma við svipað vandamál og þá segir Rebekka að LÓA geti hjálpað skipaflutningafyrirtækjum að nýta pláss í gámum enn betur með því að lækka flækjustigið við lausavöruflutninga. Búið er að innleiða hugbúnaðinn í vöruhúsum Samskipa í Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi, Íslandi og Rotterdam og bráðum bætast Færeyjar og Þýskaland við.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu mánudaginn 3. mars.