Markaðir bæði í Evrópu og Bandaríkjunum lækkuðu eftir að ljóst varð að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlaði að láta verða af því að leggja 25% tolla á vörur frá Kanada og Mexíkó og 20% tolla á vörur frá Kína.
Trump tilkynnti um ákvörðun sína í gærkvöldi, eftir að hafa frestað fyrri áformum um tolla í 30 daga. Verðbréfavísitölur vestanhafs lækkuðu í kjölfarið. Þannig fór Nasdaq niður um 2,64%, S&P 500 niður um 1,76% og Dow Jones niður um 1,48%.
Kanada og Kína hafa þegar brugðist við og sett tolla á valda vöruflokka og hótar Kanada að setja á mun umfangsmeiri tolla innan þriggja vikna láti Bandaríkin ekki af tollastefnunni. Má því segja að tollastríð sé skollið á milli ríkjanna, en Kína, Kanada og Mexíkó eru þrjú helstu viðskiptaríki Bandaríkjanna.
Markaðir í Evrópu lækkuðu líka nokkuð eftir opnun í morgun.
Þegar þetta er skrifað nemur lækkunin 0,39% á FTSE 100-vísitölunni í Bretlandi, 1,90% á DAX-vísitölunni í Þýskalandi og 1,20% á CAC 40-vísitölunni í Frakklandi.