Alexander Jensen Hjálmarsson hjá Akkri – Greiningu og ráðgjöf segir í samtali við Morgunblaðið að það sé aðeins tímaspursmál hvenær sá mikli peningur sem liggur í innlánum fari að leita í meiri mæli inn á verðbréfamarkaði og stærsti áhrifavaldurinn þar verði væntanlega hversu mikið og hversu hratt vextir verða lækkaðir.
Í janúar var nettó innflæði í verðbréfa- og fjárfestingarsjóði rúmlega 9 milljarðar króna og þar af var mesta innflæðið í peningamarkaðssjóði eða tæpir 5 millljarðar króna.
Nettó innflæði í hlutabréfasjóði nam rúmlega 1.300 milljónum króna sem gerði það að verkum að í fyrsta sinn síðan í ágúst 2021 hefur núna verið nettó innflæði í hlutabréfasjóði fimm mánuði í röð.
Þetta kemur fram í greiningu Akkurs sem byggist á nýjum tölum fyrir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði sem ná yfir janúar síðastliðinn og Seðlabankinn birti í síðustu viku.
Einnig voru birtar tölur fyrir bankakerfið í janúar fyrir stuttu og í greiningu Akkurs segir að áhugavert sé að fylgjast með þróun innlána heimilanna. Innlán heimila jukust um 28 milljarða króna í janúar. Síðustu 12 mánuði hafa innlán heimila aukist um 273 milljarða króna en til samanburðar er markaðsvirði Arion banka og Íslandsbanka u.þ.b. 230 milljarðar króna hvors.
Í greiningunni kemur fram að innlán heimilanna hafi numið í lok nóvember rúmlega 1.720 milljörðum króna eða rúmlega 50% af markaðsvirði allra félaganna í kauphöllinni.
Í samtali við Morgunblaðið segir Alexander að áhugavert sé að setja innlán heimilanna í samhengi við eign heimilanna í sjóðum sem er hægt að lesa út úr tölum Seðlabankans.
„Þar má sjá að eign heimilanna í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er nánast í sögulegu lágmarki eins langt aftur og tölurnar ná,“ segir Alexander og bætir við að ef horft sé einungis á eign heimilanna í hlutabréfasjóðum hafi hlutfallið aðeins aukist undanfarna mánuði en sé engu að síður lágt í sögulegu samhengi. Hann segir að á tímabilinu frá 2011 fram að innrás Rússa í Úkraínu hafi hlutfallið á milli eignar í sjóðum og innlána farið stöðugt hækkandi, það hafi vissulega hækkað aðeins undanfarna mánuði en sé samt ennþá langt frá fyrri gildum.
„Það sem mér finnst helst áhugavert í þessu er hvað innlán hafa aukist gríðarlega mikið á undanförnum árum, sem dæmi er aukningin frá innrás Rússa í Úkraínu 590 milljarðar kóna á meðan það hefur verið nettó útflæði úr verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum upp á 110 milljarða króna á sama tíma. Ef við horfum bara á hlutabréfasjóði hefur verið nettó útflæði upp á 16 milljarða á þessu sama tímabili,“ segir Alexander að lokum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu.