Rauður dagur í Kauphöllinni

Bjallan í Kauphöllinni á Íslandi.
Bjallan í Kauphöllinni á Íslandi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hlutabréf hafa lækkað mikið í Kauphöllinni í morgun og hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 2,48% það sem af er degi. Mest hafa lækkað hlutabréf fyrirtækja sem eiga talsvert undir útflutningi á vörum og þjónustu til Bandaríkjanna.

Í gær tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti að tollar sem hann hafði áður tilkynnt um gagnvart Kanada og Mexíkó myndu taka gildi, en um er að ræða 25% tolla á flestar vörur. Þá hækkaði hann fyrri áform um tolla á Kína og verða þeir 20% í stað 10%.

Í kjölfarið hafa Kína og Kanada brugðist við með gagntollum á bandarískar vörur og má því segja að tollastríð sé skollið á milli Bandaríkjanna og þriggja stærstu viðskiptalanda þeirra.

Trump hefur einnig beint sjónum sínum að ESB

Vísitölur í erlendum kauphöllum beggja vegna Atlantshafsins lækkuðu í gær og við opnun markaða í dag og sömu sögu var að segja hér á landi. Gerist það þrátt fyrir að tollunum sé ekki beint gegn Íslandi, en Trump hefur þó áður sagt að hann áformi 25% tolla gagnvart löndum Evrópusambandsins.

Óvíst er hvaða áhrif það hefði á Ísland, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur talað um að Ísland þurfi að passa sig á að lenda ekki á milli ESB og Bandaríkjanna komi til tollastríðs.

Mesta lækkunin í Kauphöllinni hér á landi er á bréfum Oculis, eða um 6,57%. Þá hafa bréf í Alvotech lækkað um 5,36% og í Play um 4,73%. Bréf í Iceland Seafood hafa lækkað um 3,74%, í námufyrirtækinu Amaroq um 3,57%, í JBT Marel um 3,53% og í Eimskipum um 3,51%.

Bréf í öllum öðrum skráðum fyrirtækjum hafa lækkað, ef frá er talið bréf í Kaldalóni sem hafa hækkað um 0,39% í aðeins 110 þúsund króna viðskiptum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK