Fransk-íslenska viðskiptaráðið, í samvinnu við Innviðateymi Íslandsbanka, heldur alþjóðlega ráðstefnu um samvinnuverkefni í dag. Á ráðstefnunni verður birt skýrsla um samvinnuverkefni unnin af Reykjavík Economics fyrir Íslandsbanka.
Í samtali við Morgunblaðið nefnir Sölvi Sturluson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka, að skýrslan sem unnin hafi verið fyrir bankann sé hugsuð sem innlegg í samtalið um hvernig samvinnuverkefni geti stuðlað að framförum og aukinni hagsæld hér á landi með frekari innviðafjárfestingu. Sölvi segir: „Fjárfestingaþörf í innviðum á Íslandi er umtalsverð bæði í viðhaldi núverandi innviða sem og í nýjum verkefnum. Við sem þjóð erum í þeirri forréttindastöðu að eiga enn töluvert af þjóðhagslega arðbærum fjárfestingakostum en því miður hefur allt of lítið gerst í þeim efnum undanfarin ár.“
Sölvi færir rök fyrir því að miðað við innviðaskuldina, árlegt viðhald og nýfjárfestingar sé auðvelt að reikna sig upp í að nauðsynlegt sé að setja 300 milljarða á ári í innviðafjárfestingar næstu 10 ár.
Ljóst sé að mati Sölva að ríki og sveitarfélög hafi ekki svigrúm til að fjármagna þetta ein.
Greinin birtist í Morgunblaðinu.