Jón von Tetzchner, eigandi Vivaldi-vafrans, segir að gagnasöfnun tæknirisanna, Google, Meta o.s.frv., sé hættuleg. Áhrifin séu þjóðfélagsleg og birtist í svokallaðri skautun (e. polarization). „Fólk hættir að geta talað saman. Það fer að lifa í mismunandi heimum. Það er hluti af því sem kemur út úr söfnun gagna að þú sérð auglýsingar og efni á netinu tengt því sem þú og aðrir sem líkjast þér eru að horfa á. Þannig er okkur ýtt í mismunandi áttir, sem er stórhættulegt. Á sama tíma hafa þessi fyrirtæki, eins og Facebook, fundið út að það sem gerir okkur reið heldur okkur áfram á síðunni. Fólk fer að rífast um hluti. Persónulega tel ég að það ætti að vera bannað að nýta gögn á þennan hátt og að safna þeim upp um hvern og einn notanda.“
Hann segir að kannski sé ekki um beina hættu fyrir hvern og einn einstakling að ræða heldur fyrir samfélagið í heild. „Við endum á að innbyrða mismunandi upplýsingar sem gerir okkur reið út í hvert annað. Við förum að lifa á mismunandi „plánetum“. Það er ótrúlega mikilvægt að sporna gegn þessu. Eitt af því sem við gerðum með íslensku Neytendasamtökunum var að búa til vefsíðuna banspying.org. Þar má kynna sér málið.“
Spurður að því hvort hann hafi orðið var við þessa skautun í daglega lífinu játar Jón því. „Þetta er minna á Íslandi en víða annars staðar, en þetta er orðið mjög sýnilegt í Bandaríkjunum þar sem ég bý. Vinir mínir hafa lýst áhyggjum af því að ná ekki að komast í gegnum þakkargjörðarkvöldverð með fjölskyldunni án þess að fara að rífast. Þetta er ekkert grín. Um þetta er líka rætt í bandarískum fjölmiðlum, um það hvernig þú átt að lifa af fjölskyldusamkomur þar sem þú hittir fólk sem sér heiminn á allt annan máta en þú.“
Jón segir að í Covid-19-faraldrinum hafi Íslendingar kynnst þessari skautun. „Þá skiptist fólk í ólíka hópa.“