Spurður hvort hann telji mikilvægt að hér á landi séu starfrækt tvö íslensk flugfélög segir Jóhannes að það sé vissulega mikilvægt að íslensk flugfélög fljúgi hingað, til og frá landinu.
„Hvort þau séu eitt, tvö eða þrjú er ekki stóra málið. Við búum við það núna að vera með tvö flugfélög sem eru í samkeppni og ég tel að það sé bara jákvætt, bæði fyrir okkur sem neytendur hér á landi og ekki síður fyrir samkeppni á markaðnum um flug til Íslands,“ segir Jóhannes og bætir við að það geri það að verkum að fleiri flugfélög horfi til Íslands sem áfangastaðar en ekki eingöngu til þess að komast inn í keðjuna yfir Atlantshafið.
„Við höfum á undanförnum árum séð að íslensku flugfélögin hafa forgangsraðað að koma með farþega hingað til lands eða þessa túristafarþega. Íslensk ferðaþjónusta væri ekki á þeim stað sem hún er í dag ef við værum ekki búin að vera með íslenskt flugfélag hér á landi í áratugi,“ segir Jóhannes og bætir við að hver sé fjöldi íslenskra flugfélaga sé eitthvað sem rekstrarlegar forsendur verði að ráða.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: