Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins og stjórnarmaður Landssamtaka lífeyrissjóða, vakti athygli á háum þóknunum erlendra lífeyristrygginga í aðsendri grein sem birtist í ViðskiptaMogganum á dögunum.
Þar benti Ólafur á að auk lífeyrissjóða og innlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar bjóði þrír erlendir vörsluaðilar upp á þjónustu tengda séreignarlífeyrissparnaði hér landi, þ.e. Allianz, Bayern-Líf og VPV. Hann telur vafa undirorpið hvort þóknanir sem erlendu vörsluaðilarnir taki af lífeyrisgjaldi séu í samræmi við íslensk lög. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði megi aðeins verja lífeyrisiðgjaldi, sem greitt er af launum hvers og eins, til öflunar lífeyrisréttinda og óheimilt sé að ráðstafa því í þóknanir eða annan kostnað líkt og erlendu aðilarnir gera.
Ólafur fullyrðir að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum taki Allianz á Íslandi þóknun sem nemur 25,8% af lífeyrisiðgjaldi fyrstu fimm ár samningstímans. Þá falli niður 20,5% upphafsþóknun eftir fimm ár og þóknunin verði eftir það 5,3%. Miðað við 40 ára samningstíma sé þóknunin samtals 7,9%.
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, tekur í sama streng og ítrekar að lífeyrissjóðum sé ekki heimilt samkvæmt lögum að taka þóknanir af greiddu iðgjaldi.
„Það hefur komið á óvart að það sé verið að taka þóknanir sem reiknast sem hlutfall af greiddu iðgjaldi. Slíkt mál kom upp á árinu 2009 þar sem innlendur vörsluaðili var með sparnaðarleið þar sem þóknun var tekin af iðgjaldi og var honum gert það ljóst af Fjármálaeftirlitinu, skattayfirvöldum og fjármálaráðuneytinu að það stangaðist á við lög,“ segir Þórey í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hún segir umræddar þóknanir gríðarlega háar og mikilvægt sé út frá neytendavernd að skera úr um lögmæti þeirra.
„Það sem skiptir mestu máli er neytendaverndin, þ.e. að þeir einstaklingar sem leggja fyrir sinn skyldulífeyrissparnað og frjálsan viðbótarlífeyrissparnað séu meðvitaðir um hvað þetta kostar þá. Hjá innlendum lífeyrissjóðum er heildariðgjaldið móttekið og ávaxtað en ekki hluti af iðgjaldinu notaður í kostnað eða þóknun,“ segir Þórey.
Þórey segir að furðu sæti að eftirlitsaðilar hafi ekki með meiri festu látið málið til sín taka en hér er um mikilvægt neytendamál að ræða og ekki hafi enn fengist skýr svör við því hvort þessar þóknanir séu í samræmi við íslensk lög.
Hún segir aðspurð að háar þóknanir komi eðlilega til með að rýra lífeyrissparnað hjá fólki.
„Þú leggur ekki fyrir og ávaxtar fé sem búið er að klípa af í þóknanir,“ segir Þórey.