Samband lífeyrissjóða auk alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja hafa bent á ört vaxandi þörf á að styrkja innviði Íslands. Við sem þjóð getum einfaldlega ekki beðið lengur.
Í tilefni þessa var Fransk-íslenska viðskiptaráðið með ráðstefnu á dögunum í samvinnu við innviðateymi Íslandsbanka. Á ráðstefnuninni var Stefán Jón Friðriksson, svæðisstjóri Norræna fjárfestingarbankans fyrir Ísland (NIB), með erindi.
Stefán hefur starfað á lánasviði NIB síðastliðin 17 ár, einkum við fjármögnun innviðaverkefna, meðal annars svokölluð PPP-verkefni (samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila) bæði í Noregi og Finnlandi.
Stefán bendir á að á undanförnum árum hafi stjórnvöld, ásamt hagsmunasamtökum á borð við Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samband lífeyrissjóða auk alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja, bent á að ört vaxandi þörf sé á að styrkja innviði Íslands. Sérstaklega megi nefna nýja og uppfærða skýrslu Samtaka iðnaðarins um ástand og framtíðarhorfur helstu innviða á Íslandi. Skýrslan sýni fram á að stórt bil sé óbrúað er varðar jafnt nýframkvæmdir sem og viðhald mannvirkja á Íslandi ásamt auknum kröfum um þjónustu við almenning. Þetta gerist samtímis því að álag á innviði eykst og eftirspurn vex með auknum fjölda notenda og ört vaxandi mannfjölda.
Að mati Stefáns er ljóst að verði ekki brugðist markvisst við þessari stöðu sem fyrst, er hætta á að lífskjör á Íslandi fari smám saman versnandi.
Morgunblaðið velti því jafnframt upp við Stefán hvort Íslendingar geti farið aðrar leiðir en þeir hafi gert, hvort hægt sé að framkvæma meira og hraðar.
„Einkaframkvæmd/samvinnuframkvæmd gefur fyrirheit um að þetta sé hægt, að réttum forsendum gefnum. Við höfum um þetta frábæra fyrirmynd, sem voru Hvalfjarðargöngin sem voru fullgerð árið 1998, fjármögnuð, hönnuð, byggð og rekin í 20 ár af einkafyrirtækinu Speli og svo skilað aftur til ríkisins. Framkvæmd sem án nokkurs vafa hefur skilað þjóðarbúinu ótal milljörðum í formi tímasparnaðar og orkunotkunar, fyrir utan þægindin fyrir vegfarendur. Þó ber að hafa í huga að ekki er víst að nákvæmlega eins væri staðið að málum ef farið væri í verkefnið í dag. Þannig hafa alþjóðlegir útboðsskilmálar og hönnunarstaðlar tekið talsverðum breytingum frá þessum tíma,“ segir Stefán.
Stefán bætir við: „Í mínum huga þarf að styrkja undirstöður og þekkingu jafnt stjórnvalda og einkamarkaðarins á PPP. Þá þarf ekki síður að skýra stefnu stjórnvalda enn frekar. Útboðskröfur á grunni svona verkefna eru almennt tímafrekar. Við Íslendingar eigum ekki að finna upp PPP-hjólið. Framkvæmdin við opinber útboð og aðferðafræði fjármögnunar byggist á samræmdum og stöðluðum samningum, þar sem áhættuskipting á að vera skýr, fjárhagslegir mælikvarðar eru negldir niður sem og lánaskilyrði lánaveitenda.“
Að lokum nefnir Stefán: „Íslenskir bankar geta veitt þessu góðan stuðning, en þegar rætt er um langtímafjármögnun sé ég fyrir mér að lífeyrissjóðir, bæði íslenskir og erlendir, geti komið að málum ásamt alþjóðlegum fjárfestingarbönkum á borð við bankann sem ég starfa hjá. Til þess þarf grunnurinn að vera sterkur.“
mj@mbl.is