KPMG og Orkuklasinn voru með fund í morgun þar sem vindorka var til umræðu. Samkvæmt tilkynningu ávarpaði Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála fundinn og tók þar fram að beislun nýrra orkuleiða væri lykilatriði til að stuðla að bættu orkuöryggi og auknum sveigjanleika orkukerfisins.
Haft er eftir Jóhanni Pálli: „Við þurfum að leysa úr óvissu þegar kemur að greiðslu fasteignagjalda af orkumannvirkjum. Ég held að ef við náum ekki samstöðu um þetta þá komumst við ósköp lítið áfram og náum engri samfélagslegri sátt um vindorkukosti. Því tel ég einboðið að teikna verði upp skýra mynd af því hvernig ávinningur af vindorku, sem og öðrum orkukostum, skili sér með sanngjarnari hætti í nærsamfélagið.“
„Hér er úrlausna þörf og það kallar á samhæfða vinnu milli míns ráðuneytis og svo fjármála- og efnahagsráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins,“ sagði Jóhann Páll enn fremur og tók fram að rík samstaða um mikilvægi þessara mála ríkti innan ríkisstjórnarinnar: „Markmið okkar í orkumálum eru skýr. Við ætlum að ryðja burt hindrunum og liðka fyrir framkvæmdum. Við ætlum að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við raforkuöryggi, orkuskipti og verðmætasköpun um allt land.“