Hampiðjan birti í dag ársreikning fyrir 2024. Þar kemur fram að rekstrartekjur samstæðunnar hafi verið 318,8 milljónir evra og hafi lækkað um 1,0% frá fyrra ári. EBITDA félagsins var 37,4 milljónir evra samanborið við 37,5 milljónir evra á árinu 2023, en hlutfallið 11,7% af tekjum hélst óbreytt.
Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld á árinu nema 6,4 milljónum evra til gjalda samanborið við 8,3 milljónum evra til gjalda fyrir sama tímabil í fyrra. Fjáreignatekjur aukast um 2,1 milljónir evra á milli ára eða frá 2,6 milljónir evra á árinu 2023 í 4,8 milljónir evra á árinu 2024. Fram kemur að megin skýring á þessari breytingu er hærri vaxtatekjur af bankainnistæðum en fyrir ári.
Hagnaður ársins var 14,0 milljónir evra en var 11,7 milljónir evra á árinu 2023.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok ársins 53,6% af heildareignum samstæðunnar en var 55,2% í árslok 2023.
Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 178,6 milljónum evra samanborið við 168,0 milljónum evra í ársbyrjun.
Í tilkynningu félagsins er meðal annars haft eftir Hirti Erlendssyni, forstjóra:
„Árið 2024 var að mörgu leyti gott fyrir Hampiðjuna en ekki án áskorana því ytri aðstæður voru krefjandi á sumum mörkuðum og höfðu áhrif á rekstur félagsins.
Sem ástæður fyrir þessum samdrætti má meðal annars nefna langt verkfall í Færeyjum síðastliðið sumar, sölutregðu á fiskeldisbúnaði í Noregi, áhrif stríðsins í Úkraníu á verkefni í fiskeldi vegna eignaraðildar rússneskra félaga, aukinni verðsamkeppni í fiskeldisbúnaði, endurteknum niðurskurði á kvóta í Barentshafi og loðnubresti á Íslandsmiðum.
Fjármagnskostnaður ársins varð umtalsvert lægri en á árinu 2023 eða rúmar 6,4 milljónir evra samanborið við rúmar 8,3 milljónir evra eða lækkun sem nemur 1,9 milljónum evra. Ástæðan er vaxtatekjur af þeim hluta hlutafjáraukningarinnar sumarið 2023 sem fyrirhugaður var til uppbyggingar og afkastaaukningar í Litháen.
Hagnaður samstæðunnar eftir skatta hækkaði umtalsvert frá árinu áður eða úr rúmum 11,7 milljónum evra í rúmar 14,0 milljónum evra eða um 19,3%. Þar munar mest um hærri fjáreignatekjur sem námu 2,1 milljónum evra og lægri tekjuskatti um rúmar 0,4 milljónum evra.
Innan samstæðu Hampiðjunnar eru nú 47 fyrirtæki. Ef undan eru skilin framleiðslufyrirtækin 5 í Litháen, Póllandi og Kína og móðurfyrirtækið á Íslandi ásamt öðrum eignarhaldsfyrirtækjum þá eru það 28 fyrirtæki sem standa í framlínunni í sölu til útgerðar- og fiskeldisfyrirtækja.
Starfsmenn Hampiðjunnar voru að meðaltali 1.941 á árinu en voru 1.947 árið áður og fækkaði því um 6 störf. Um 59% starfsmanna hjá samstæðunni eru karlar og 41% konur. Á síðasta ári störfuðu 109 starfsmenn á Íslandi sem er eilítil auking frá fyrra ári. Af heildinni eru nú tæp 6% starfa samstæðunnar hér á landi. Sem fyrr eru fjölmennustu starfsstöðvarnar í Litháen en þar starfa nú um 750 starfsmenn. Með Kohinoor mun starfsmönnum væntanlega fjölga um 700 á þessu ári.“