Samdráttur í tekjum og EBITDA hjá Síldarvinnslunni

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar mbl.is/Kristinn Magnússon

Síldarvinnslan hagnaðist um 6,1 milljarð íslenskra króna í fyrra. Tekjurnar á síðasta ári námu 325,1 milljón dollara og 88,3 milljónum dollara á fjórða ársfjórðungi samanborið við 404,7 milljónir dollara árið 2023.

Rekstrartekjur drógust því saman um 19,7%. Tekjusamdrátturinn skýrist af því að ekki var veidd loðna á árinu 2024 og einnig höfðu náttúruhamfarirnar við Grindavík neikvæð áhrif.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á árinu 2024 var 84,0 milljónir dollara eða 25,8% af rekstrartekjum. Á árinu 2023 var EBITDA 121,8 milljónir dollara og 30,1% af rekstrartekjum. Lækkun á milli tímabila nemur því 37,8 milljónir dollara. Á fjórða ársfjórðungi 2024 var EBITDA 26,0 milljónir dollara eða 29,4% af rekstrartekjum en hún var 25,4 milljónir dollara eða 29,3% af rekstrartekjum á fjórða ársfjórðungi 2023.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 56,1 milljónir dollara árið 2024 samanborið við 92,2 milljónir dollara árið 2023. Á fjórða ársfjórðungi 2024 var hagnaður fyrir tekjuskatt 20,3 milljónir dollara samanborið við 12,9 milljónir dollara á sama tímabili 2023. Tekjuskattur fyrir árið 2024 nam 12,0 milljónum dollara og hagnaður ársins því 44,1 milljón dollara samanborið við 73,4 milljónir dollara hagnað árið 2023. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi var 15,7 milljónum dollara samanborið við 10,6 milljónir dollara á sama tímabili 2023.

Eigið fé félagsins nam 643,1 milljón dollara. Eiginfjárhlutfall var 60,7% í lok tímabilsins en það var 58,6% í lok árs 2023.  

Haft er eftir Gunnþóri Ingvasyni í tilkynningu að árið hafi verið krefjandi og samdráttur í rekstri skýrist að mestu leyti með aflabresti í loðnu í byrjun árs og eldsumbrotum á Reykjanesi.

„Þrátt fyrir fyrrnefnd áföll tókst ágætlega að spila úr stöðunni og seinni hluti ársins var góður og má nefna að vinnslur í Grindavík störfuðu á fullum afköstum frá 1. september. Til að bregðast við umbrotum í Grindavík var sett upp saltfiskvinnsla til bráðabirgða í Helguvík og fiskur fluttur til vinnslu í Þýskalandi. Margvíslegur einskiptiskostnaður hefur hlotist af þessu umróti sem enn sér ekki fyrir endann á. Árið einkenndist af töluverðum samdrætti í tekjum og EBITDA, eins og rakið hefur verið, sem má að mestu rekja til loðnubrestsins og jarðhræringanna á Reykjanesi. Félagið horfir fram á kostnaðarhækkanir og áskoranir í ytra umhverfi rekstrarins árið 2025. Samdráttur er í aflaheimildum uppsjávarfisks. Auk þess hafa laun og aðrir kostnaðarliðir hækkað undanfarin ár, sem setur aukinn þrýsting á reksturinn," er haft eftir Gunnþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK