Staðan í heiminum var rædd á iðnþingi Samtaka iðnaðarins (SI) í gær og hvernig Ísland þurfi að bregðast við ört vaxandi breytingum. Stór hluti dagskrárinnar snéri að öryggis- og varnarmálum.
Morgunblaðið hafði samband við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem sagði: „Við byggjum okkar lífskjör á að framleiða verðmæti og flytja út. Þess vegna þarf greiðan aðgang að helstu mörkuðum. Gervigreindarkapphlaup stendur yfir í heiminum þar sem aðgengi að tækni gervigreindar skiptir sköpum. Allt þetta kallar á öfluga alþjóðlega hagsmunagæslu og í því sambandi verður að horfa bæði til vesturs og austurs. Þó að Evrópa sé okkar mikilvægasti markaður í dag þarf líka að efla tengslin vestur um haf og til Asíu.”
Sigurður bendir jafnframt á að gervigreindarkapphlaupið sé vopnakapphlaup 21. aldarinnar. Sem stendur sé Ísland einfaldlega ekki þar með. Bandaríkin hafi sett útflutningstakmarkanir sem þýðir að lönd hafi mismikið aðgengi að tækni gervigreindar. Í dag búi Island við takmarkanir líkt og ríki Afríku og hluti Suður-Ameríku. Tryggja þurfi Íslandi aðgengi að þessari lykiltækni.