„Norðmenn sögðu einfaldlega nei“

Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri Kemi. „Reiknar ekki út verðmæti vörumerkja í …
Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri Kemi. „Reiknar ekki út verðmæti vörumerkja í Excel-skjali.“ mbl.is/Karítas

„Mín sýn á rekstur er þannig að ef þú ert ekki að vaxa og stækka ertu að deyja.“ Þetta sagði Hermann Guðmundsson framkvæmdastjóri Kemi á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins. Þar ræddi hann við Stefán Einar Stefánsson um feril sinn, rekstur Kemi og sitthvað fleira.

Hermann á að baki langan feril í viðskiptum, en hann starfaði meðal annars um tíma sem forstjóri N1 og Bílanausts.

Hann rifjaði upp tímann þegar hann starfaði fyrir hrun sem forstjóri N1, sem á þeim tíma hét Esso. Hann lýsir því að hann hafi tekið við góðu búi þegar hann settist í forstjórastólinn eftir Hjörleif Jakobsson.

„Við tókum við fyrirtækinu 26. febrúar 2006 og síðan skall á míní-bankakreppa, þannig að það kom strax mótvindur í fangið,“ sagði Hermann og lýsti því að snemma á árinu 2008 hefði róðurinn orðið þungur.

„Við vorum að selja eldsneyti og stór hluti sjávarútvegsins keypti eldsneyti frá okkur. Á þessum tíma áttum við von á skipi frá Noregi með eldsneyti. Olíubransinn virkar þannig að þú verður að borga áður en skipið leggur af stað,“ sagði Hermann, en á þessum tíma var olíuverðið komið í 140 dollara á tunnu. „Þannig að skipið kostaði okkur 22 milljónir dollara.“

Hermann lýsir því að hafa fengið þau svör frá Íslandsbanka að ekki væru til neinir dollarar í landinu.

„Við sáum fyrir okkur að þetta gæti farið mjög illa, þannig að ég hringdi til Statoil og spurði hvort við mættum borga síðar og fékk neitun eftir að beiðnin fór í gegnum norska fjármálaráðuneytið. Það skipti ekki máli þó að við værum með ábyrgð frá Seðlabankanum og ríkisstjórnarinnar, við fengum bara neitun,“ sagði Hermann.

Hermann hafi þá leitað til Seðlabankans sem umbeðinn hafi stigið inn í málið, en þá var Davíð Oddsson seðlabankastjóri.

„Davíð Oddsson átti þó dollara og hann lánaði Íslandsbanka þessa dollara og í kjölfarið kom skipið. Það hefði farið illa ef þetta hefði ekki bjargast. Það hefði orðið olíuskortur hér á landi,“ sagði Hermann.

Samþættingin gengið vel

Í covid-faraldrinum hagnaðist Kemi mjög á sölu gríma, spritts og hanska, en Kemi er með umboð fyrir 3M sem framleiðir slíkar vörur.

Hermann lýsir því að ágóðinn af þeirri sölu hafi verið notaður til að kaupa Poulsen árið 2022, en það fyrirtæki er í svipuðum rekstri og Kemi, sölu smurvara og ýmissa annarra bílavara, auk þess að reka tvö bílrúðuverkstæði. Umrædd kaup stækkuðu rekstur Kemi til muna.

„Það var sama fólk á bak við Poulsen og var á bak við Bílanaust á sínum tíma, þannig að það var mikið traust á milli okkar. Poulsen er 112 ára gamalt fyrirtæki með djúpar rætur og sterk viðskiptatengsl,“ sagði Hermann.

Hann sagði að samþætting þessara tveggja fyrirtækja hefði gengið afar vel.

„Samþætting fyrirtækjanna hefur lukkast frábærlega. Það verður þó aldrei sama menning innan fyrirtækjanna tveggja þó að það verði sami kraftur. Þetta eru ólík fyrirtæki á sitthvoru æviskeiðinu,“ sagði Hermann.

Á fundinum í gær lýsti hann einnig ákvörðuninni um að reka fyrirtækin tvö hvort undir sínu nafni í stað þess að sameina undir einu nafni.

„Það er ekki hægt að reikna út verðmæti vörumerkja í Excel-skjali en það var alveg ljóst að fjöldi fólks hafði verslað við Poulsen í áratugi og það talaði enginn um Kemi á sama hátt og ég heyrði fólk tala um Poulsen. Þetta er einfaldlega mjög sterkt vörumerki og við vildum ekki missa það,“ sagði Hermann.

Öflugur viðskiptaklúbbur

Kompaní er viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is og er ætlað að sameina starfandi fólk á Íslandi. Kompaní er þannig vettvangur miðla Árvakurs til að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu þar sem hægt er að hlýða á fræðslufundi og fyrirlestra, fylgjast með nýjungum og læra af reynslu annarra sem þekkja hvað það er að reka fyrirtæki á Íslandi. Á fundinum sem fram fór í gær gæddu gestir sér á veitingum frá Finnsson Bistro.

Kompaní er Viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is til að sameina starfandi …
Kompaní er Viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is til að sameina starfandi fólk á Íslandi. Fjölmenni var á fundinum í Hádegismóum. mbl.is/Karítas
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK