Erfitt að keppa við ríkisstyrkt fyrirtæki

Ægir Páll Friðbertsson forstjóri ISI segir það ánægjulegt að sjá …
Ægir Páll Friðbertsson forstjóri ISI segir það ánægjulegt að sjá viðsnúning í rekstri á fyrsta ári sínu sem forstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Mikill viðsnúningur var í rekstri Iceland Seafood International á síðasta ári.

Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri Iceland Seafood, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að það hafi verið ánægjulegt að sjá þessa þróun á rekstrinum og styrkleika félagsins á þessu fyrsta heila starfsári hans sem forstjóri félagsins.

„Fram eftir árinu 2024 voru sveiflur í verði og óvissa var á markaði. Hátt verð var á laxi fram undir mitt ár en það náði síðan jafnvægi sem gerði það að verkum að hagnaður var af laxatengdri starfsemi. Á sama hátt urðu breytingar á mörkuðum fyrir hvítfisk á síðasta fjórðungi ársins, salan jókst, verð hækkaði og var afkoma fjórðungsins ein sú besta sem verið hefur hjá félaginu á þeim ársfjórðungi,“ segir Ægir Páll.

Hagnaður Iceland Seafood fyrir skatta af reglulegri starfsemi var um 1,1 milljarður króna á síðasta ári. Niðurstaðan er yfir spá félagsins.

Rekstrartekjur samstæðunnar voru um 66 milljarðar króna sem er 3% aukning frá 2023. Rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi 2024 námu 19,3 milljörðum króna sem er aukning um 16% frá sama ársfjórðungi 2023.

Hagnaður ársins eftir skatta og óreglulega liði nemur 414 milljónum króna, samanborið við 3 milljarða króna tap 2023. EBITDA fyrir árið 2024 er 2,6 milljarðar króna en var 1,6 milljarðar króna á árinu 2023.

Skoða þurfi samkeppnishæfni fiskvinnslna

Á uppgjörsfundinum sagði Ægir Páll að það geti verið áskorun fyrir félagið og íslenskar fiskvinnslur að keppa við ríkisstyrktar fiskvinnslur í Evrópu.

Hann sagði jafnframt að stjórnvöld ættu að huga að samkeppnishæfni íslenskra fiskvinnslna sem eru í samkeppni um hráefni og viðskiptavini við fiskvinnslur í Evrópu sem eru að stórum hluta til byggðar upp fyrir opinbera styrki.

Spurður hvaða aðgerðir hann myndi vilja sjá af hálfu stjórnvalda á því sviði segir Ægir Páll að hann hafi aldrei verið talsmaður boða og banna, höft séu ekki til góðs.

„Ég tel að taka verði þá umræðu hvort Ísland vill verða í auknum mæli hráefnisútflytjandi á heilum fiski fyrir styrktar fiskvinnslur, það þarf að greina ástandið og skoða ofan í kjölinn samkeppnishæfni íslenskra fiskvinnslna. Það er fyrsta skrefið en samkeppni við ríkisstyrkt fyrirtæki er alltaf erfið,“ segir Ægir Páll.

Líkt og áður sagði var mikill viðsnúningur í rekstri Iceland Seadood á síðasta ári. Ægir Páll segir að það sé helst því að þakka að eftirspurnin hafi aukist.

„Salan á fjórða fjórðungi síðasta árs gekk afar vel og markaðirnir tóku við sér. Minnkun þorskkvóta í Barentshafi hafði þar jákvæð áhrif þó að áhrifin af þeim niðurskurði geti verið neikvæð til lengri tíma,“ segir Ægir Páll og bætir við að allar líkur séu á því að sú eftirspurn haldist áfram út árið 2025 og jafnvel til lengri tíma.

Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK