Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Ég er svo afskaplega lánsamur að fá að lifa lífinu á stöðugu flandri um heiminn, með hund og kött í eftirdragi. Það kallar á heilmikið umstang að eiga svona veraldarvön gæludýr en hefur líka veitt mér dýrmæta innsýn í stjórnsýslu og regluverk þjóða: hvar hlutirnir eru í lagi og hvar allt er í ólestri.
Sums staðar eru reglurnar um inn- og útflutning hunda og katta ósköp einfaldar og fyrirhöfnin í lágmarki, og annars staðar eru reglurnar flóknar en málefnaleg rök sem liggja að baki og upplýsingagjöfin skýr. Síðan eru löndin þar sem reglurnar eru úr hófi flóknar, strangar og skrítnar, svo að það er jafnvel ómögulegt að átta sig á hverjar kröfurnar eru og engin svör að fá þegar leitað er til stjórnvalda eftir útskýringum. Sum lönd gera miklar formkröfur svo að fara þarf með pappírana – og jafnvel dýrin líka – á nokkra staði til að fá stimpla af öllu mögulegu tagi. Sums staðar er það á allra vitorði að samantekin ráð virðast um að villa um fyrir gæludýraeigendum svo að þeir lendi með ranga pappíra og neyðist til að greiða tollverði mútur til að fá að taka dýrin inn í landið.
Í stuttu máli sagt þá eru ferlarnir í kringum ferðalög hunda og katta ágætis mælikvarði á stjórnarfar þjóða. Og hvergi hef ég kynnst annarri eins vitleysu eins og þegar ég ætlaði að taka dýrin með mér til Indlands.
Í lok síðasta árs flutti ég frá Víetnam til Ítalíu en ætlaði mér upphaflega að taka nokkurra mánaða stopp í Nýju-Delí. Þurfti ég að gefa þau plön upp á bátinn þegar það rann upp fyrir mér að ég myndi hreinlega þurfa að ráða teymi lögfræðinga til að sækja um öll tilskilin leyfi og undanþágur fyrir dýrin. Eftir því sem ég kafaði dýpra komu fleiri reglur og eyðublöð í ljós, og erfitt að greina nokkurn tilgang með öllum flækjunum annan en þann að skapa meiri vinnu fyrir opinbera embættismenn.
Hugsaði ég með mér að fyrst indverskum stjórnvöldum tekst að flækja það svona ofboðslega að flytja blindan hund og skapstyggan kött á milli landa, hvernig er þá flækjustigið fyrir venjulegan atvinnurekstur? Hvað þarf mörg eyðublöð til að fylla inn pallettu af þorskhnökkum, og hve marga stimpla til að reisa nýja verksmiðju?
Þess vegna fann ég mér einfaldlega annan áfangastað, því ekki skortir valkostina. Það sama gildir auðvitað um fjárfesta og frumkvöðla, að óþarfa flækjur og vesen fælir fólk og fyrirtæki í burtu og þau leita eitthvað annað. Embættismennirnir hafa nóg að gera við að stimpla og sortera eyðublöð, en hagkerfið tapar.
Einhverra hluta vegna eru vinstrimenn gjarnir á að benda á Indland sem dæmi um hvað kapítalisminn sé afleitur. Eru rökin á þá leið að kenna megi arðráni nýlendutímabilsins um fátækt Indlands í dag. Að vísu eiga þessir sömu vinstrimenn erfitt með að svara þegar spurt er hvort stjórnarfar og hagkerfi Indlands á nýlendutímabilinu hafi einkennst af miklu markaðsfrelsi og afskiptaleysi eða, þvert á móti, miklum inngripum og miðstýringu.
Er líka fátt um svör þegar spurt er hvernig Indverjar hafa haldið á spilunum frá því landið öðlaðist sjálfstæði fyrir næstum 80 árum. Reyndin er að sósíalísk hagstjórn réð þar ferðinni allt fram á tíunda áratuginn en þá var loksins hafist handa við að frelsa hagkerfið og tók landsframleiðslan risastökk í framhaldinu. Samt er reynt að kenna kapítalisma og frjálshyggju um að Indland skuli ekki vera ríkara.
Svipaða sögu má segja um flest lönd Afríku. Agalega brattir vinstrimenn á Vesturlöndum kenna nýlendutímabilinu um að álfan skuli vera fátæk en skauta alveg yfir að það átti við um næstum öll löndin þar að þegar þau öðluðust sjálfstæði komust róttækir sósíalistar til valda og var hagsældin eftir því.
Arðrán Vesturlanda er einmitt þema nýjustu skýrslu Oxfam. Það er orðið að reglu hjá samtökunum að gefa út dramatískar skýrslur samhliða ráðstefnunni í Davos og hef ég fjórum sinnum áður notað þennan pistil hér í ViðskiptaMogganum til að benda á gloppur, misskilning og útúrsnúning í málflutningi Oxfam. Kannski veitir það tilefni til bjartsýni að þetta árið fékk skýrsla Oxfam nær enga athygli, aldrei þessu vant.
Í skýrslu Oxfam er einmitt minnst á Indland á nokkrum stöðum og vitna höfundarnir í rannsókn þar sem reiknað var út að á tímabilinu 1765 til 1900 hefði Bretland sogað til sín jafnvirði nærri 65.000 milljarða bandaríkjadala úr indverska hagkerfinu.
Upp á grín reiknaði ég út hver landsframleiðslan á Indlandi gæti verið ef þar hefði verið frjálst markaðshagkerfi frá því landið öðlaðist sjálfstæði. Gott land til samanburðar er Singapúr, þó að vissulega gildi ekki alveg sömu lögmál um borgríki og risaþjóðir.
Miðað við þær tölur sem ég gat fundið með hraði hefur landsframleiðsla á Indlandi vaxið að jafnaði um 3,78% árlega frá 1947 til 2023, en þá verður að hafa í huga að vöxturinn átti sér nær allur stað eftir aldamótin 2000, þegar áhrifin frá efnahagsumbótum tíunda áratugarins tóku að koma fram. Fram að því bifaðist hagkerfið varla úr stað.
Landsframleiðsla Singapúr var ekki upp á marga fiska árið 1947 en frá því að landið öðlaðist sjálfstæði um miðjan sjöunda áratuginn höfðu stjórnvöld þar að leiðarljósi að hámarka efnahagslegt frelsi. Árangurinn lét ekki á sér standa og hefur hagkerfið vaxið að meðaltali 8-9% árlega á tímabilinu sem um ræðir.
Ef indverska hagkerfið hefði verið frjálst allt frá því landið fékk sjálfstæði, og vaxið jafnhratt og hagkerfi Singapúr, þá væri árleg landsframleiðsla þar um og yfir 65.000 milljörðum dala hærri en hún er í dag. Þetta þýðir sum sé að hvert einasta ár er efnahagslegur fórnarkostnaður Indverja vegna sósíalískrar hagstjórnar á seinni helmingi 20. aldarinnar álíka mikill og tjónið af öllu arðráni Breta yfir 135 ára tímabil.
Hvert einasta ár!
Annað þema í skýrslu Oxfam þetta árið er að auðæfi milljarðamæringa heimsins séu ekki verðskulduð, og að flestir þeirra hafi annaðhvort erft milljarðana ella auðgast í krafti einokunarstöðu, spillingar eða fyrirgreiðslu stjórnvalda.
Forsendurnar hjá Oxfam eru svo langsóttar að þess er gætt að birta þær í aðskildu skjali frekar en í skýrslunni sjálfri. Þannig eru t.d. allir milljarðamæringar í tækni- og tískugeiranum sjálfkrafa álitnir vera í einokunarstöðu, og einnig þeir sem hafa auðgast á því að reka fjárfestingarsjóði – og samt eru þetta geirar þar sem ríkir bullandi samkeppni.
Á milljarðamæringalista Forbes má vissulega finna nokkra auðmenn sem efnuðust á því að misnota pólitísk sambönd. Gott dæmi um þetta er Carlos Slim, og var ekkert eðlilegt við það hvernig hann sölsaði undir sig fjarskiptamarkaðinn í Mexíkó. En þannig kónar eru í minnihluta, hvað þá í hópi bandarískra og evrópskra milljarðamæringa.
Þaðan af síður hefur hinn dæmigerði milljarðamæringur auðgast á kostnað annarra, eins og Oxfam virðist halda. Þvert á móti hafa þeir efnast með því að stækka kökuna og skapa gríðarmikil verðmæti fyrir samfélagið allt, og eru þeirra persónulegu auðæfi bara lítið brot af þessari verðmætasköpun.
Ef geimverur myndu kíkja í heimsókn á morgun og nema á brott bæði milljarðamæringana og líka þau fyrirtæki, vörur og þjónustu sem þeir hafa búið til yrði heimsbyggðin ekki ríkari heldur fátækari. Mætti slumpa á að efnahagslegu áhrifin yrðu á við það að færa mannkynið 100 ár aftur í tímann.
Máli mínu til sönnunar bað ég Grok, það stórgóða gervigreindartól, að reikna út með mér efnahagslegt framlag Jeffs Bezos, stofnanda Amazon. Eftir mikla yfirlegu og grúsk í heimildum fengum við það út að fyrir hvern dollar sem Bezos hefur fengið í sinn hlut hefur ávinningur bandaríska hagkerfisins og alþjóðahagkerfisins verið í kringum 13 dali, deilt niður á starfsmenn, hluthafa og hæstánægða viðskiptavini.
Það var þá aldeilis arðránið.