Fyrir hvern er fyrirkomulag innkaupamála á Íslandi?

Birgir Örn Birgisson eigandi útboðsþjónustunnar Consensa.
Birgir Örn Birgisson eigandi útboðsþjónustunnar Consensa. Ljósmynd/Aðsend

Consensa veitir viðskiptavinum sínum innkaupaþjónustu og innkauparáðgjöf. Félagið veitir innkauparáðgjöf og tekur að sér framkvæmd útboða óháð tegund innkaupa. Consensa hóf að bjóða opinberum aðilum upp á þjónustu sína árið 2019. Frá stofnun hefur félagið séð um yfir 100 útboð fyrir íslensk sveitarfélög. Árangur Consensa hefur vakið eftirtektarverða athygli bæði hérlendis og erlendis. Fyrir breytingu á lögum um opinber innkaup, árið 2019, var kveðið á um það í lögum að Ríkiskaup, sem voru miðlæg innkaupastofnun, skyldi annast innkaup fyrir ríkisstofnanir. Stofnunin veitti ríkisstofnunum og sveitarfélögum innkaupaþjónustu á hálfgerðum einokunarmarkaði. Flestir vita hvað einkennir þjónustu og aðra starfsemi sem veitt er á slíkum markaði.

Takmörkuð ánægja hafði verið hjá ýmsum ríkisstofnunum með þjónustu stofnunarinnar og stjórnendur þeirra kröfðust aukins frelsis við kaup á innkaupaþjónustu. Stjórnendur stórra ríkisstofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins börðust auk þess fyrir því að fá frelsi til að bera ábyrgð á eigin innkaupum. Árið 2019 voru gerðar veigamiklar breytingar á lögunum. Markmið lagabreytinganna voru að auka sveigjanleika í regluverki fyrir innkaupaþjónustu ríkisins þannig að það samræmdist betur nýjum og breyttum áherslum í opinberum innkaupum. Samræma átti fyrirkomulagið við það fyrirkomulag sem þekktist í öðrum norrænum ríkjum. Með breytingunni var ákvæði laganna um hlutverk Ríkiskaupa fellt úr lögunum.

Í öðrum norrænum ríkjum er innkaupaþjónusta fyrir hið opinbera nær undantekningarlaust veitt af lögfræðistofum og ráðgjafarfyrirtækjum á frjálsum markaði. Þar veita miðlægar innkaupastofnanir ekki innkaupaþjónustu í samkeppni við aðila á markaði. Fyrir vikið er mikil samkeppni á markaði fyrir innkaupaþjónustu sem leiðir til þess að gæði slíkrar þjónustu eru alla jafna mun meiri en hér á landi. Það kom eflaust öllum, sem þekktu vel til fyrirkomulags innkaupamála á Íslandi, á óvart þegar þáverandi fjármálaráðherra birti nýja reglugerð um fyrirkomulag innkaupa ríkisins stuttu eftir að lögunum var breytt. Í reglugerðinni mátti nefnilega finna ákvæði sem voru nánast eins og þau ákvæði sem Alþingi hafði nýlega fellt úr lögunum.

Hin umdeilda reglugerð tók gildi um svipað leyti og Consensa hafði auglýst sitt fyrsta útboð. Um var að ræða kaup á nauðsynlegum röntgentækjum fyrir nokkrar heilbrigðisstofnanir. Eftir að ný reglugerð hafði tekið gildi og útboð Consensa verið auglýst höfðu starfsmenn ráðuneytis og Ríkiskaupa ólögmæta íhlutun í útboð Consensa sem að endingu var afturkallað. Hvorugum þessara aðila hafði þó verið falið eftirlit með framkvæmd opinberra innkaupa samkvæmt ákvæðum laganna. Íhlutun þessara aðila byggðist á þeirri forsendu að opinberum aðilum væri skylt að nýta sér þjónustu Ríkiskaupa samkvæmt umræddri reglugerð og að þeim væri óheimilt að nýta sér þjónustu Consensa. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við umrædda reglugerð og íhlutun þessara aðila í útboð Consensa en þeim athugasemdum var svarað á þann veg að Consensa ætti að geta unað því vel að geta veitt sveitarfélögum innkaupaþjónustu.

Það skal hins vegar tekið fram að Ríkiskaup, sem voru á fjárlögum, ætluðu sér aldeilis ekki að láta af þjónustu sinni fyrir sveitarfélög sem veitt var í ójafnri samkeppni við Consensa. Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2023 voru Ríkiskaup með erindi þar sem því var ranglega haldið fram að innkaupaþjónusta þeirra væri helmingi ódýrari en þjónusta Consensa. Á undanförnum árum hafa fjölmargar stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins keypt innkaupaþjónustu af erlendum fyrirtækjum sem starfa á frjálsum markaði. Þessi erlendu fyrirtæki hafa aflað sér dýrmætrar þekkingar og reynslu á sviði innkaupamála því þau hafa fullt frelsi til að veita innkaupaþjónustu. Eftir því sem vitað er þá hafa erlendar stofnanir og fyrirtæki í þeirra eigu aldrei leitað til Fjársýslunnar og fyrirrennara hennar eftir kaupum á innkaupaþjónustu.

Er ekki kominn tími á að ráðast í raunverulegar breytingar á fyrirkomulagi innkaupamála og að ríkið hætti að veita þjónustu sem veitt er á markaði eða hætt sé að skylda ríkisstofnanir til að kaupa innkaupaþjónustu af öðrum ríkisstofnunum? Fyrir hvern er fyrirkomulag innkaupamála á Íslandi?

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK