Mikil breyting varð á skipuriti Símans í fyrra þegar sviðið „Sjálfbærni og menning“ var lagt niður og tekjusviðum fjölgað.
„Við vildum færa aukinn fókus á viðskiptavininn,“ útskýrir María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans í samtali við ViðskiptaMoggann. Hún leggur þó áherslu á að mannauðsmál og sjálfbærni hafi fengið nýjan sess innan skipuritsins og séu í góðum farvegi. Með því að samþætta þessa málaflokka við önnur svið hefur Síminn unnið að því að sjálfbærni verði fléttuð inn í alla þætti starfseminnar en mannauðsmálin heyra nú beint undir forstjóra.
Stafræn umbreyting er annar þáttur sem Síminn leggur áherslu á. Fyrirtækið hefur unnið að því að nútímavæða stafrænan arkitektúr félagsins til þess að vera fljótari að bregðast við breytingum og koma nýjum vörum á markað. „Við erum með mjög sterka tæknilega innviði og erum að nota mörg fremstu viðskiptakerfi í heiminum, en við höfum staðið á gömlum grunni, eins og algengt er í rótgrónum fyrirtækjum. Það sem við erum að gera núna er að nútímavæða það hvernig við geymum og flokkum gögnin okkar og hvernig kerfin okkar tala saman. Það mun gera okkur auðveldara um vik að samþætta mismunandi vörur og þjónustur, enda viljum við að upplifun viðskiptavina sé að þeir verði hluti af vistkerfi Símans þar sem allar þjónusturnar þeirra tengjast saman á saumlausan hátt,“ segir María Björk.
Spurð út í þá hörðu samkeppni sem er við lýði á íslenska fjarskiptamarkaðnum þar sem viðskiptavinir eru lokkaðir til nýrra fyrirtækja með gylliboðum og frímánuðum segir María Björk að Síminn hafi tekið þá ákvörðun á síðasta ári að breyta sinni nálgun og draga úr inngöngutilboðum.
„Í grunninn er það þannig að ef þú þarft að gefa vöruna þína til að fá til þín nýja viðskiptavini þá ertu að senda skilaboð um að varan þín sé einfaldlega ekki nógu góð. Við höfum tekið meðvitaða ákvörðun um að breyta þessari nálgun og í stað slíkra kostnaðarsamra aðgerða til að fjölga viðskiptavinum ætlum við að nýta fjármunina til þess að bæta upplifun núverandi viðskiptavina og draga úr líkum á brottfalli. Að okkar mati gengisfellir þú vöruna þína með því að gefa hana, auk þess sem þú sækir á markhóp sem er líklegri til þess að stoppa stutt við,“ segir María Björk.
Fyrirtækið hefur notið árangurs af fjárfestingum í innlendri dagskrárgerð. Sjónvarpsþjónustan hefur notið góðs af innlendu framleiðslunni og sjónvarpsseríur á borð við „Ice Guys“ hafa haft jákvæð áhrif á áskriftir og auglýsingatekjur. María Björk lofar enn meira úrvali á þessu ári og stefnir félagið að því að frumsýna fimm nýjar innlendar þáttaraðir, enda sé íslenskt efni mikilvægt til þess að halda í og laða að viðskiptavini. Á sama tíma er Síminn að skoða möguleika á samstarfi við aðrar efnisveitur til að fjölga valkostum fyrir viðskiptavini.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum.