Svipmynd: Ríkið á ekki að vera í samkeppnisrekstri

Guðrún Ragna segir að það sé einkennileg staða hversu mikið …
Guðrún Ragna segir að það sé einkennileg staða hversu mikið pláss opinber fyrirtæki taki og gefi ekkert eftir í samkeppni við einkaaðila, sem skekkir mikið samkeppnisstöðuna. Morgunblaðið/Hákon

Guðrún Ragna Garðarsdóttir var ekki nema 32 ára þegar hún tók við forstjórastólnum hjá Atlantsolíu árið 2008. Hún segir, eins og margir aðrir stjórnendur í atvinnulífinu, að hátt vaxtastig og óvissa í alþjóðamálum séu helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir nú á dögum.

Hverjar eru helstu áskoranir í rekstrinum þessi misserin?

Hátt vaxtastig og óvissa í alþjóðamálum eru sannarlega áskoranir sem við stöndum núna frammi fyrir. Staða alþjóðamála, yfirvofandi tollastríð og stríðsógn getur eðli máls samkvæmt haft meðal annars mikil áhrif á þróun olíuverðs.

En þegar horft er lengra fram í tímann eru orkuskipti stóra áskorunin í okkar rekstri. En öllum áskorunum fylgja tækifæri. Við erum að byrja okkar vegferð þar og höfum opnað þrjár hraðhleðslustöðvar. Því hafa fylgt margar áskoranir enda um mjög nýjan og óþroskaðan markað að ræða.

Þar er sem dæmi sú einkennilega staða uppi að fyrirtæki í opinberri eigu taka mikið pláss og gefa ekkert eftir í samkeppni við einkaaðila. Samkeppnisstaðan er því mjög skökk, sem er mikil áskorun út af fyrir sig.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Best þykir mér að að komast út fyrir borgarmörkin og þá að fara upp í bústað eða komast austur á Seyðisfjörð í nokkra daga til að hlaða batteríin. Góðir göngutúrar eða fjallgöngur eru frábær orkuinnspýting og svo er samvera með fjölskyldu og vinum ómetanleg.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Áframhaldandi uppbygging á hraðhleðsluneti okkar og áframhaldandi þróun á appinu sem við settum í loftið í fyrra. Halda áfram að styrkja okkar markaðsstöðu og vera leiðandi í að bjóða gott verð.

Einnig að halda áfram að vera leiðandi í því að gera orkukaup einföld og þægileg fyrir okkar viðskiptavini, hvort sem um er að ræða eldsneyti eða rafmagn.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ég fór í fyrsta skipti á World Business Forum í New York í október í fyrra. Það var mjög áhugvert og fínn innblástur inn í veturinn.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Með því að sækja ráðstefnur, fyrirlestra og ýmiss konar námskeið. Ég verð þó að viðurkenna að ég mætti alveg vera duglegri þarna en eins og hjá flestum þá gengur misvel að gefa sér tíma í að sinna þessum þáttum í amstri dagsins.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Almennt, já, þá geri ég það. Heilt yfir vel ég að borða hollt þó auðvitað séu undantekningar á því eins og öðru. Ég reyni að hreyfa mig reglulega, lyfta, fara í hot yoga og svo út að ganga eða hlaupa. Það koma þó reglulega tímabil þegar vinnan yfirtekur allt og heyfingin situr á hakanum.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Þegar ég var í menntaskóla var alltaf planið að verða arkitekt en einhvern veginn endaði ég í allt öðru.

Hugsa að ef ég þyrfti að velja mér nýjan vettvang væri það í einhverju meira kreatífu eða alla vega í meira kreatífum geira. Styrkleikar mínir liggja í rekstri en draumastarfið væri þá kannski að geta nýtt þá styrkleika á öðrum vettvangi.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Verandi með þrjár viðskiptagráður þá held ég að ég myndi taka algjöra U-beygju. Arkitektanám væri líklega efst á blaði eða eitthvert hönnunarnám.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Stundum mætti vera meiri fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi. Þar gætu stjórnvöld staðið sig mun betur.

En það gerist ítrekað að löggjafinn kemur með stórvægilegar breytingar á lögum sem hafa áhrif á rekstur fyrirtækja án mikils fyrirvara eða samráðs við hagaðila. Að mínu viti mætti samráð og samtal við hagaðila hefjast fyrr í ferlinu og áður en byrjað er að skrifa drög að nýjum lögum eða lagabreytingum.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Fyrsta sem ég myndi gera væri að breyta því sem þyrfti svo opinber fyrirtæki færu út af samkeppnismörkuðum eins og raforkumarkaði.

Það er algjörlega galið að fyrirtæki í opinberri eigu séu í fullri samkeppni við einkafyrirtæki á þeim markaði. Eins myndi ég leggja niður Áfengisverslun ríkisins, einkaaðilar eru fullfærir um að standa í þeim verslunarrekstri eins og öðrum.

Það er ekki hlutverk ríkisins að standa í samkeppnisrekstri. Svo er nauðsynlegt að breyta lögum um opinbera starfsmenn. Það er bara ekkert eðlilegt við það að opinberir starfsmenn njóti réttinda langt umfram það sem þekkist á almennum markaði.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK