Notendum Vivaldi vafrans, sem er í eigu frumkvöðulsins og fjárfestisins Jóns von Tetzchner fer jafnt og þétt fjölgandi, en vafrinn fagnar tíu ára afmæli á þessu ári. „Við erum með 3-3,5 milljónir notenda. Aukningin mætti ganga hraðar, en þetta tekur tíma.“
Jón segir að Vivaldi sé innihaldsríkasti vafrinn á markaðnum. „Til dæmis geturðu hindrað auglýsingar og eftirfylgni (e. tracking). Við höfum byggt inn tölvupóst, dagatal og RSS. Þeir sem hafa mestu þarfirnar koma fyrst til okkar og eru ánægðir. Sama má segja um tölvunördana. Þeir eru margir hjá okkur.“
Jón er ómyrkur í máli þegar hann ræðir stöðuna í heiminum í dag og hlutverk Vivaldi í honum. „Það eru margir spennandi hlutir í pípunum hjá okkur og hluti af þeim tengist því sem er að gerast í veröldinni. Fólk er ekki ánægt með hvað tæknirisarnir eru að gera, Meta, Google, o.s.frv. Fólk er að leita að lausnum til að nota í staðinn og þar höfum við ákveðna sérstöðu.“
Jón ítrekar stöðu Vivaldi í tækniheiminum, sem er mikilvæg að hans mati. „Samkeppnisyfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum ræða reglulega við okkur. Þau leita til okkar til að fá upplýsingar um hvernig er að keppa við þessi fyrirtæki og hvaða aðferðir þau nota til að stöðva keppinauta.“
Risarnir vita sem sagt af ykkur
Já, þeir vita hver við erum.“
En um hvað eru samkeppnisyfirvöld að forvitnast?
„Þau vilja vita hvernig okkur gengur að breiða út vöruna okkar. Staðreyndin er til dæmis sú að allir sem nota tölvu með Windows-stýrikerfinu fá fjölda viðvarana þegar þeir reyna að hlaða vafranum okkar niður. Ef fólki tekst það og það merkir vafrann sem sjálfgefinn (e. default) þarf ekki annað en eina af þessum reglulegu uppfærslum á Windows til að tölvan breyti sjálfgefnum vafra aftur yfir í Microsoft Edge, sem fylgir Windows-stýrikerfinu, án þess að spyrja kóng eða prest. Þetta er sérlega bagalegt af því að vafri er það forrit sem fólk notar í nær alla hluti í dag.“
Það kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir en Vivaldi, Microsoft Edge og fleiri vafrar nota Chromium-kóðann frá Google sem undirliggjandi tækni. Chromium er opinn hugbúnaður (e. open source). „Við gerum samt fullt af breytingum á tækninni, en það er ekki þar með sagt að þær skili sér inn í grunnkóðann.“
Jón segir að samkeppnisyfirvöld séu þessi misserin mikið að skoða hvernig tæknirisarnir koma fram við keppinauta. „Að sumu leyti er þetta að verða stórpólitískt.“
Hluti af vandamálinu er gagnasöfnun risanna, en Jón hefur verið óþreytandi að gagnrýna það atriði. Vivaldi safnar ekki gögnum um notendur sína. „Úr þessum gögnum búa fyrirtækin til gagnagrunna um fólk sem eru notaðir á óheppilegan hátt.“
Eftir nýjustu vendingar í stjórnmálum í Bandaríkjunum, þar sem nýkjörinn forseti, Donald Trump, hefur fengið tæknirisana á sitt band og t.d. fengið fulltrúa í stjórn Meta er komið ákveðið ójafnvægi á hlutina að sögn Jóns. „Þarna eru tæknirisarnir komnir með öflugan bandamann í baráttu sinni við samkeppnisyfirvöld í Evrópu og annars staðar sem vilja einungis verja notendur og samkeppni.“
Jón segir að barátta risanna snúi einnig að skattamálum. „Þessi fyrirtæki hafa fundið aðferðafræði til að borga lítinn skatt í Evrópu. Hlutirnir eru orðnir mjög skrýtnir þegar eðlileg og lögleg krafa um skattgreiðslur er orðin hluti af viðskiptastríði milli heimsálfa.“