Verktakar taka mikla áhættu

Einar Páll Kjærnested, sölustjóri hjá Byggingafélaginu Bakka, segir að fasteignir …
Einar Páll Kjærnested, sölustjóri hjá Byggingafélaginu Bakka, segir að fasteignir séu besta fjárfestingin. mbl.is/Hákon

Einar Páll Kjærnested, sölustjóri hjá Byggingafélaginu Bakka ehf., sem er að reisa sextíu íbúðir sem sniðnar eru að hlutdeildarlánakerfinu, í samstarfi við HMS og Mosfellsbæ, segir það skjóta skökku við að lokað sé fyrir umsóknir í kerfinu. Staðan setur kaup á þó nokkrum íbúðum í uppnám.

„Við fórum af stað með sextíu íbúðir sem uppfylla öll skilyrði fyrir hlutdeildarlánum. Fyrstu fimmtán fóru á sölu í byrjun febrúar og það var mikill áhugi, sérstaklega hjá yngra og efnaminna fólki. Íbúðirnar seldust allar í fyrstu vikunni. Stór hluti var frá aðilum sem vildu kaupa með hlutdeildarláni en það sorglega er að lokað hefur verið fyrir umsóknir síðan í desember 2024. Ef ekki verður opnað fyrir þær fljótlega fellur þetta verkefni um sjálft sig. Það er ekki hægt að standa í að byggja svona hlutdeildarlánaíbúðir ef ekki er hægt að fá þessi hlutdeildarlán,“ segir Einar.

Íbúðirnar eru í Helgafellshverfinu í Mosfellsbæ. Fyrstu íbúðirnar verða tilbúnar til afhendingar fullbúnar með gluggatjöldum og heimilistækjum í lok maí næstkomandi.

Einar segir að hefðbundinn fyrirvari um fjármögnun í fasteignaviðskiptum sé 30 dagar. „Við munum gefa viðbótarfrest í ljósi aðstæðna, í þeirri von að fjárheimild fyrir lánunum verði veitt fljótlega.“

Einar segir að verktakar séu að taka áhættu með svona uppbyggingu. Þeir byggi fyrir eigið fé og lánsfé. Því sé ekki gott þegar ferlið bregst, en verktakar eins og Byggingafélagið Bakki eru að sögn Einars mjög jákvæðir fyrir þátttöku í verkefnum sem þessu sem er hluti af rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð á hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir ungt og efnaminna fólk.

Hann segir að fyrirsjáanleiki skipti máli enda taki það 18-24 mánuði að byggja. Erfitt sé þegar ekki sé vitað hvort fjármagn til íbúðarkaupa verði í boði í lok byggingartíma. Yfirvöld þurfi að horfa 2-3 ár fram í tímann þegar ákveðið sé að bjóða hlutdeildarlán. „Þetta gengur ekki nógu vel þegar ríkið dregur lappirnar. Það þýðir ekki að vera bara með lán í boði í 12 mánuði og svo klárast peningarnir áður en íbúðirnar koma á markað.“

Bakki hyggst setja fimmtán íbúðir til viðbótar í sölu á næstu vikum. „Við viljum fá sem flesta hlutdeildarlánakaupendur. Við viljum miklu frekar að íbúðirnar fari til þeirra en einhverra fjárfesta úti í bæ. Ungt fólk kaupir líka án hlutdeildarlána, en það er erfitt að komast inn á markaðinn. Seðlabankinn og viðskiptabankarnir hafa þrengt að fólki með því að draga úr framboði á löngum verðtryggðum lánum.“

Á erfitt með að skilja andstöðuna

Einar á erfitt með að skilja andstöðuna við slík lán, enda henti þau sérstaklega ungu fólki og efnaminna vegna lægri greiðslubyrði en af óverðtryggðum lánum. „Það skýtur til dæmis skökku við að óhagnaðardrifna leigufélagið Bjarg fjármagnar sig á 50 ára verðtryggðum lánum. Því bjóðast sem sagt mun hagstæðari kjör en neytendum. Þarna er óbeint verið að ýta fólki inn á leigumarkað, þegar menn ættu að gera allt sem þeir geta til að fólk geti eignast sína eigin íbúð. Leigumarkaðskannanir sýna að 90% fólks sem er á leigumarkaði vilja ekki vera þar. Það er þar af neyðinni einni saman. Lykillinn er að veita löng verðtryggð lán svo að fólk komist yfir erfiðasta hjallann.“

Einar segir margsannað að fasteignir séu langbesta fjárfesting hvers einstaklings. Þar skapist verðmætin til lengri tíma. Því sé mikilvægt að gera allt sem hægt er svo að fólk komist inn á markaðinn.

Einar segir að kröfur Seðlabankans um að fólk verði að standast greiðslumat miðað við 25 ára verðtryggð lán séu sérstaklega ósanngjarnar gagnvart tekjulægra fólki – þrátt fyrir að fólki bjóðist lengri verðtryggð lán. „Munurinn er það mikill að stór hópur tekjulægra fólks kemst ekki í gegnum þetta greiðslumat þó að það geti greitt af 40 ára láni, en á sama tíma eru óhagnaðardrifnum leigufélögum boðin 50 ára verðtryggð lán til að byggja leiguíbúðir fyrir þennan hóp.“

Um úrræðið:

Hlutdeildarlánin eru sérstök húsnæðislán sem eru veitt af hinu opinbera til að auðvelda fyrstu kaupendum og tekjulágum einstaklingum að eignast fasteign. Þessi lán eru hluti af húsnæðisstefnu stjórnvalda og eru hönnuð til að brúa bilið á milli eigin fjár kaupandans og þess sem hann getur fengið í hefðbundnu húsnæðisláni.

Uppbygging á húsnæði sem að fellur undir hlutdeildarlán felur ekki í sér neina aðkomu sveitarfélaga hvað varðar að fella niður gatnagerðargjöld, lóðagjöld eða byggingarréttargjöld.

Í stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er kveðið á um að stefnt sé að því að hlutdeildarlán verði fest í sessi með skilvirkari framkvæmd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK