Það er meginregla í samningarétti að gerða samninga beri að halda. Þannig geta aðilar að samningssambandi ekki bakkað út úr eða hætt við samning eftir að hann er kominn á nema eitthvað sérstakt komi til.
Það getur komið upp ef gerður hefur verið fyrirvari við samning eða ef aðili samnings vanefnir hann þannig að það veiti gagnaðila rétt til að rifta.
Almennt þarf mikið til svo heimilt sé að rifta samningi. Í einstaka tilvikum getur samningur verið ógildanlegur, til dæmis ef til samningsins hefur verið stofnað með sviksamlegum hætti.
Þetta á afar sjaldan við. Þegar samningar eru hugsaðir til lengri tíma er ekki óvanalegt að þeir feli í sér uppsagnarákvæði sem gerir samningsaðilum kleift að segja upp samningnum og losna þannig undan honum, allt eftir því sem kveðið er á um í samningnum.
Þetta leiðir til þess að verslunum er almennt ekki skylt að taka við vörum sem keyptar hafa verið, hvort sem það er peysa sem passar ekki, gjöf sem hentaði ekki eða aðrar ástæður sem leitt geta til þess að kaupandi vilji skipta eða skila vörunni aftur í verslunina.
Margar verslanir heimila engu að síðu skil á vörum innan tiltekins frests. Stundum er einungis heimilt að skila og fá aðra vöru í staðinn en stundum er hægt að fá endurgreitt, allt eftir þeim viðmiðum sem viðkomandi verslun hefur sett sér.
Frá þessu er mikilvæg undantekning í lögum um neytendasamninga nr. 16/2016 en þar er neytendum veittur réttur til að falla frá kaupum innan 14 daga.
Lögin gilda um samninga sem neytendur gera við seljendur sem hafa atvinnu af því að selja vörur eða veita þjónustu.
Lögin eiga við um viðskipti utan fastrar starfsstöðvar seljandans og fjarsölusamninga, til dæmis þegar vara er keypt á netinu.
Frá lögunum eru ýmsar undantekningar eins og um kaup á happdrættismiðum, samninga um fjármálaþjónustu og fasteignakaup.
Lögin mæla fyrir um rétt neytenda til að falla frá kaupum innan 14 daga frá því samningur komst á ef um fjarsölu er að ræða eða kaup utan fastrar starfsstöðvar seljanda.
Í lögunum er einnig lögð sú upplýsingaskylda á seljanda að upplýsa neytandann um ýmis praktísk atriði, þar á meðal fyrrnefndan rétt til að falla frá kaupunum.
Ef seljandi vöru eða þjónustu upplýsir neytandann ekki um rétt hans til að falla frá kaupum innan 14 daga, þá lengist fresturinn um eitt ár. Ef seljandi upplýsir neytanda um rétt hans innan þess árs byrjar 14 daga fresturinn þó að líða á því tímamarki.
Það er því mikill munur á rétti neytanda til að skila vörum eftir því hvort neytandinn kaupir vörurnar á netinu eða í eiginlegri verslun enda réttarstaða neytenda sterkari í fyrrgreinda tilvikinu. Það sama á við um kaup á þjónustu.
Ef vara er keypt á staðnum í verslun þá ber seljandanum engin skylda til að taka við vörunni aftur og leyfa skil á henni en ef hún er keypt á netinu eða í annarri fjarsölu þá ber seljandanum að taka við henni og endurgreiða hana innan 14 daga.
Frá þessari reglu eru tilgreindar undanþágur í lögunum en sem dæmi um undanþágur má nefna þegar um kaup á þjónustu er að ræða sem hefur verið veitt að fullu, þegar um vörur er að ræða sem úreldast eða rýrna fljótt, í samningum sem gerðir eru á opinberum uppboðum eða afhendingar á vöru sem er framleidd samkvæmt forskrift neytandans.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.