ÍL-sjóður og ríkið munu afhenda kröfuhöfum sínum skuldabréf upp á 540,4 milljarða króna ef tillögur ÍL-sjóðs og fjármálaráðuneytisins verða samþykktar.
Kröfuhafarnir fengju einnig önnur verðbréf að verðmæti 38 milljarða króna, reiðufé í gjaldeyri að verðmæti 55 milljarða króna og 18 milljarða í íslenskum krónum.
Upphæðin nemur því samtals 651,4 milljörðum.
„Með þessum tillögum skapast grundvöllur til að ljúka langvinnu úrlausnarefni ríkissjóðs en viðræður um málið hafa staðið yfir í rúmlega eitt ár,“ segir í til í sameiginlegri tilkynningu frá ÍL-sjóði og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Í tilkynningunni kemur fram að ráðgjafar 18 lífeyrissjóða og viðræðunefnd fjármálaráðherra hafi komist að niðurstöðu um að leggja fyrir skuldabréfaeigendur tillögu að uppgjöri HFF-bréfa sem greiða mun fyrir slitum ÍL-sjóðs.
ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs og var stofnaður með lögum sem tóku gildi 31. desember 2019. Var hann stofnaður með það að markmiði að lágmarka áhættu ríkissjóðs í tengslum við úrvinnslu og uppgjör á uppsöfnuðum fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2025 er gert ráð fyrir viðvarandi taprekstri ÍL-sjóðs á næstu árum þar sem vaxtamunur sjóðsins er neikvæður og verðtryggðar skuldir hærri en eignir. Þar segir að uppsafnaður fjárhagsvandi sé tilkominn vegna uppgreiðslna á útlánum sjóðsins sem hófust á árinu 2004.
Í tillögunum felst að kröfur verði efndar til að gera ÍL-sjóði kleift að standa við skuldbindingar gagnvart eigendum HFF-bréfa og öðrum kröfuhöfum. HFF-bréf eru húsbréf og húsnæðisbréf með ríkisábyrgð. Virði þeirra í uppgjörinu er metið 651,4 ma.kr.
Í uppgjörstillögunum felst að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi kröfuhöfum áðurnefnd ríkisskuldabréf að andvirði 540 ma.kr., önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 ma.kr, gjaldeyri og reiðufé að andvirði 73 ma.kr.
Ríkissjóður mun, samkvæmt tilkynningunni, taka við hluta af vaxtaberandi eignum ÍL-sjóðs, samtals að fjárhæð um 222 ma.kr. en þar er um að ræða húsnæðislánasafn ÍL-sjóðs auk annarra verðbréfa.
Tillögurnar verða lagðar fyrir fund skuldabréfaeigenda til samþykktar, en samþykki 75% kröfuhafa þarf til. Reiknað er með að sá fundur fari fram í apríl.
Verði tillögurnar samþykktar mun fjármála- og efnahagsráðherra í framhaldi sækja heimild til Alþingis til að ljúka uppgjörinu með frumvarpi til fjáraukalaga.
Kauphöllin birti einnig fréttatilkynningu í morgun þar sem segir, með vísan til hinnar tilkynningarinnar, að breyting verði gerð á gildandi ársáætlun Lánamála.
„Í núverandi áætlun er gert ráð fyrir að gefa út nýjan verðtryggðan flokk með gjalddaga á árinu 2044 með fyrirhugaðri viðskiptavakt. Þess í stað verður gefinn út verðtryggður flokkur með gjalddaga á árinu 2050 með fyrirhugaðri viðskipavakt á þessu ári,“ segir í tilkynningu Kauphallarinnar.