Byggðu eigin samfélagsmiðil

Vivaldi Social er hluti af Mastodon-samfélagsmiðlinum.
Vivaldi Social er hluti af Mastodon-samfélagsmiðlinum. Hákon Pálsson

Vivaldi, sem er í eigu frumkvöðulsins og fjárfestisins Jóns von Tetzchner, hefur í samstarfi við aðra byggt upp sinn eigin samfélagsmiðil, Vivaldi Social. Er hann aðgengilegur inni í vafranum. „Við erum ekki stórir en ástæðan fyrir þessu er að við viljum berjast fyrir því að byggður verði upp öðruvísi samfélagsmiðill. Vivaldi Social er hluti af Mastodon-samfélagsmiðlinum, sem er aftur hluti af Fediverse, en kerfið er opinn hugbúnaður og líkist X/Twitter. Þarna geta aðilar sett upp tölvur sem tengjast öðrum tölvum. Þannig hangir kerfið saman í stað þess að það sé eitt miðlægt risafyrirtæki sem heldur um stjórnartauma, safnar gögnum og ákveður hvað þú færð að sjá.“

Jón segir að markmiðið sé að búa til samfélagsmiðil þar sem þú sérð það sem vinir þínir deila en ekki bara hitt og þetta dót sem algóritminn sýnir þér sjálfvirkt.

Í Mastodon-kerfinu eru 10 milljónir notenda. Til samanburðar eru notendur Facebook rúmlega þrír milljarðar.

„Notendum fjölgar og ég tel að okkar lausn sé miklu betri en X, Facebook, TikTok o.s.frv. Þar færðu að sjá alls konar furðulega hluti sem þú valdir ekki sjálfur að sjá. Á stóru miðlunum er líka gríðarlega mikið af efni sem búið er til af gervigreind, sem er hálfskrýtið og nokkuð sem maður hefur eiginlega ekki áhuga á.“

Jón ætti að vita um hvað hann er að tala. Þegar hann vann hjá rannsóknastofnun Símans í Noregi kom hann að því að setja upp einn af 100 fyrstu netmiðlurum í heimi. „Við byggðum upp intranet án þess að það nafn væri orðið til. Svo bjuggum við Operu-vafrann til innan þess og færðum svo í sérstakt fyrirtæki. Þannig að ég hef verið á netinu síðan 1992 og séð allar þær breytingar sem orðið hafa.

Ég hef alltaf sagt að netið geri heiminn betri, en svo gerðist eitthvað fyrir 12-13 árum sem ég var ekki ánægður með, og tengdist gagnasöfnun. Fyrir þann tíma voru samfélagsmiðlar öðruvísi, en á þessum tímapunkti breyttist algóritminn. Ef þú varst með milljón fylgjendur sáu þeir færslur frá þér. Núna sér bara brot af þessum fylgjendum efnið sem þú setur út, nema þú örvir það með tilheyrandi kostnaði.“

Halda þér inni

Tæknirisarnir gera allt sem þeir geta til að halda þér inni í þeirra kerfi að sögn Jóns. „Facebook vill halda þér inni, helst þannig að þú farir aldrei aftur út. Svo eru þeir að byggja sýndarveruleikaheiminn Metaverse. Þangað áttu að fara og spjalla við gervifólk og dvelja helst sem allra lengst. Ég spyr mig hvernig þetta endar. Þetta er farið að minna á kvikmyndina The Matrix og er of langt gengið. Að mínu mati á tölvutækni að hjálpa okkur en ekki að koma í staðinn fyrir aðra hluti. Það er mikilvægt að fólk talist við og hittist. Því miður er fólk að lokast inni í ákveðnum gerviheimi.“

  En af hverju halda tæknirisarnir þessu áfram?

„Þetta er auðvitað spurning um peninga. Því meira sem þú ert inni í kerfinu hjá þeim, þeim mun meira geta þeir þénað. Rannsóknir sýna að ef fólk er reitt, þá er það lengur í kerfunum og skrifar meira.“

Í upphafi samfélagsmiðlanna var fullt af skrítnu fólki sem skrifaði á miðlana að sögn Jóns. En það var úti í horni og fáir sáu færslurnar frá því. „Nú er þessu efni lyft í hæstu hæðir.“

Jón segir að þó að Elon Musk eigandi X tali um opnun og skoðanafrelsi hafi hann ekki leyft Vivaldi að skrifa það sem þau vildu og þau orðið minna sýnileg. „Það var af því að við vorum að bjóða fólki yfir á Vivaldi Social. Þetta er allt frelsið. Musk hefur breyst mikið. Það er ekki langt síðan hann var hetja í nördasamfélaginu.“

Annað dæmi um hegðun netrisanna er að Vivaldi hefur þurft að hætta að segjast vera Vivaldi á netinu. „Í hvert sinn sem þú tengist miðlara segirðu hver þú ert, hver vafrinn er. Við byrjuðum að segja að við værum Vivaldi en þurftum að hætta því. Allt í einu var þetta orðið þannig að ef við vildum t.d. fara inn á Google-síður með Vivaldi virkuðu þær ekki. Okkur var ekki hleypt inn. Við brugðum á það ráð að breyta einum bókstaf og þá var okkur hleypt inn án vandræða. Þannig að risarnir þekkja okkur.“

Núna þykist Vivaldi vera Chrome í veffyrirspurnum, enda er kerfið byggt á þeim grunni. Því lenda notendur ekki lengur í vandræðum með að skoða vefsíður í vafranum. „Vandinn er samt sá að það er erfitt að mæla notkun á Vivaldi rétt vegna þessa. Auðvitað væri betra að segjast vera það sem við erum, en það skiptir meira máli að fólk komist á vefsíðurnar sem það vill skoða.“

  En hvað verður um tæknirisana ef þeir hætta að safna gögnum og hagnýta þau? Fara þeir á hausinn?

„Netið virkaði fínt áður en byrjað var að safna gögnum á þann hátt sem gert er í dag. Nú eru allar auglýsingar seldar sjálfvirkt og enginn hefur neina stjórn á innihaldi þeirra. Áður gastu selt auglýsingu í tækniblað af því að þú vissir að allir nördarnir læsu það. Þú gast tryggt að það fylgdu engin skrýtin skilaboð með. Þessi sjálfvirka auglýsingasala hefur eyðilagt markaðinn. Ákveðin fyrirtæki hafa þénað mikinn pening á þessu en ég er viss um að þau myndu lifa af ef gagnasöfnun yrði hætt, þau myndu bara hafa öðruvísi auglýsingar, kannski minna hrollvekjandi.“

Notendur óánægðir

Jón segir að notendur séu ekki ánægðir með þessa þróun auglýsinga á netinu. Þess vegna noti margir auglýsingahindranir (e. adblock) eins og þær sem Vivaldi býður upp á. „Ef auglýsingar ganga of langt hafna notendurnir þeim. Þess vegna held ég að það væri góð lausn að banna þessa hluti, en það þýðir ekki að við viljum banna auglýsingar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK