Bandarísk fjarskiptayfirvöld tilkynntu á föstudag að Starlink, dótturfyrirtæki geimflaugafélagsins SpaceX, yrði leyft að auka styrkleikann í gagnasendingum á milli gervihnatta félagsins og farsíma á jörðu niðri.
Í febrúar tilkynntu SpaceX og Starlink, sem eru í eigu Elons Musks, og fjarskiptarisinn T-Mobile um nýtt samstarfsverkefni sem miðar að því að bæta farsímasambandið á afskekktum svæðum í Bandaríkjunum, með því að leyfa viðskiptavinum T-Mobile að tengja farsíma sína við gervihnetti SpaceX.
Í tilkynningu sem félögin sendu frá sér í febrúar kom fram að fyrst um sinn yrði hægt að senda textaskilaboð í gegnum gervihnattatenginguna en að til stæði að bæta síðar við þeim möguleika að senda myndir og önnur gögn, og hringja venjuleg símtöl. Virkjast þessi tenging sjálfkrafa ef sími viðskiptavinar T-Mobile er utan þjónustusvæðis hefðbundinna farsímaloftneta á jörðu niðri.
Að sögn T-Mobile eru um 1,3 milljónir ferkílómetra lands í Bandaríkjunum utan sendisviðs farsímakerfisins, en til samanburðar er það á við þrettánfalt flatarmál Íslands.
Þessi nýja þjónusta þykir hafa gefið nokkuð góða raun en notendur hafa þó bent á að sambandið við gervihnetti Starlink geti verið slitrótt. Er þar væntanlega komin skýringin á því að Starlink og T-Mobile vilja fá leyfi til að auka styrkinn í merkinu sem gervihnettirnir senda til jarðar.
AT&T og Verizon, helstu keppinautar T-Mobile, mótmæltu því að leyft yrði að auka styrkinn og bentu á að sterkara merki ofan úr geimnum gæti valdið truflunum og sums staðar raskað farsímasambandi. Fór fjarskiptaráð Bandaríkjanna þann meðalveg að setja það sem skilyrði fyrir leyfinu að Starlink leitaði allra leiða til að koma í veg fyrir truflun á farsímasambandi annarra fyrirtækja á markaðinum.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu mánudaginn 10. mars.