Arinbjörn Rögnvaldsson
Verð á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum tók skarpa dýfu í gær vegna ótta fjárfesta við neikvæð efnahagsleg áhrif af tollahækkunum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti boðar á önnur ríki.
Samkvæmt frétt BBC urðu markaðir áhyggjufullir þegar Trump lét hafa eftir sér í sjónvarpsviðtali um helgina að stærsta hagkerfi heims væri á „breytingaskeiði” þegar hann var spurður hvort samdráttarskeið sé í vændum þar ytra.
Síðan Trump lét þessi ummæli falla á sunnudaginn hafa helstu ráðamenn og ráðgjafar hans reynt að róa ótta fjárfesta.
Trump viðurkenndi í viðtali við Fox News á fimmtudaginn, sem sýnt var um helgina, áhyggjur af efnahagslífinu.
Í lok viðskiptadagsins í gær lækkaði S&P 500 vísitalan sem fylgir stærstu skráðum fyrirtækjum í Bandríkjunum, um 2,7% og Dow Jones vísitalan lækkaði um 2%.
Til mynda lækkuðu hlutabréf í Tesla um 15,4%, við þessi ummæli Trumps. Hlutabréf lækkuðu einnig umtalsvert hjá öðrum bandarískum stórfyrirtækjum á borð við Meta, Amazon og Alphabet, móðurfélag Google.
Þá lækkaði dollarinn enn frekar gagnvart pundinu og evru, eftir að hafa lækkað mikið frá mánaðamótum.